Fjármála- og efnahagsráðuneyti

1106/2015

Reglugerð um vöruval, innkaup og dreifingu ÁTVR á áfengi.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Reglugerð þessi miðar að því að tryggja fjölbreytt vöruúrval í verslunum Áfengis- og tóbaks­verslunar ríkisins (ÁTVR), m.a. með hliðsjón af eftirspurn og væntingum viðskiptavina, jafn­framt því að tryggja framleiðendum og birgjum möguleika á að koma vörum í sölu í vínbúðum fyrir­tækisins.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um vöruval, innkaup og dreifingu ÁTVR á áfengi.

3. gr.

Framkvæmd.

ÁTVR fer með framkvæmd reglugerðar þessarar og skal haga framkvæmdinni í samræmi við ákvæði laga, nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak, og reglugerðar nr. 756/2011, um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ákvæði áfengislaga, nr. 75/1998, og stefnu stjórnvalda í áfengis­málum á hverjum tíma.

Jafnræðis skal gætt við framkvæmd ákvæða reglugerðarinnar.

4. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða sem hér segir:

  1. Áfengi: Hver sá neysluhæfur vökvi sem í er að rúmmáli meira en 2,25% af hreinum vínanda.
  2. Framlegð: Mismunur innkaups- og söluverðs vöru að frádregnum virðisaukaskatti.
  3. Birgir: Handhafi leyfis til að stunda heildsölu áfengis í atvinnuskyni samkvæmt áfengislögum nr. 75/1998.
  4. Vara: Áfengi og smásöluumbúðir þess. Hver vara fær sérstakt vörunúmer í skrám ÁTVR.
  5. Vöruúrval: Vörur sem boðnar eru til sölu í vínbúðum ÁTVR.

II. KAFLI

Umsóknir, vörubreytingar, verðboð o.fl.

5. gr.

Stofnsamningur um vörukaup.

Stofnsamningur um vörukaup er heildarsamningur á milli ÁTVR og birgis sem tekur til allra vöru­kaupa samkvæmt reglugerð þessari. Í stofnsamningi um vörukaup skulu koma fram allar nauð­syn­legar upplýsingar um birgi svo sem reiknings- og samskiptaupplýsingar og hverjir geta skuld­bundið hann gagnvart ÁTVR.

Í stofnsamningi um vörukaup skal m.a. kveðið á um:

  1. Vanefndaúrræði.
  2. Framsal réttinda.
  3. Gildistíma.
  4. Uppsagnarfresti.

Við undirritun stofnsamnings um vörukaup skal birgir leggja fram skriflega staðfestingu á að hann sé handhafi leyfis til þess að stunda heildsölu áfengis í atvinnuskyni samkvæmt áfengislögum, nr. 75/1998. Nú fellur heildsöluleyfið úr gildi, þar sem gildistími þess er liðinn eða vegna afturköllunar, og verður þá stofnsamningur um vörukaup þegar ógildur gagnvart ÁTVR.

Umsókn um sölu skv. 7. gr. reglugerðar þessarar verður ekki afgreidd nema fyrir liggi fullgildur stofnsamningur um vörukaup.

Vara verður ekki boðin til sérpöntunar skv. 21. gr. reglugerðar þessarar nema fyrir liggi fullgildur stofnsamningur um vörukaup.

Heimilt er að gera rafrænan stofnsamning um vörukaup.

6. gr.

Vefsvæði.

ÁTVR skal halda úti opnu vefsvæði þar sem m.a. skal birta reglur og upplýsingar sem stofnunin setur eða ber að birta samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

Birgir fær aðgang að aðgangsstýrðu vefsvæði, birgjavef, þegar stofnsamningur hefur verið undir­ritaður.

7. gr.

Umsókn um sölu.

Birgir skal sækja skriflega um að vara verði tekin í sölu og dreifingu hjá ÁTVR. Rafræn umsókn sem fyllt er út og send ÁTVR í gegnum vefsvæði stofnunarinnar er fullgild umsókn.

ÁTVR skal að jafnaði afgreiða umsókn um sölu innan þriggja vikna frá móttöku fullbúinnar umsókn­ar.

Umsókn um sölu skal fylgja:

  1. Vöruvottun.
  2. Sýnishorn vöru, a.m.k. 500 millilítrar.
  3. Ytri smásöluumbúðir þegar við á.
  4. Staðfesting á greiðslu umsóknargjalds.

Fylgigögn vegna umsóknar um sölu á vöru eru að jafnaði óafturkræf.

8. gr.

Umsóknargjald.

ÁTVR er heimilt að innheimta gjald af birgjum vegna kostnaðar sem leiðir af töku nýrrar vöru til sölu, þar með talið til sérpöntunar. Skal gjaldið eingöngu standa straum af þeim kostnaði sem til fellur vegna skráningar, könnunar og annarra nauðsynlegra ráðstafana af hálfu ÁTVR við að taka nýja vöru til sölu. Fjárhæð umsóknargjalds skal endurskoðað reglulega.

ÁTVR setur gjaldskrá umsóknargjalds og birtir hana á vefsvæði sínu.

9. gr.

Úrbætur og andmæli.

Uppfylli vara og/eða umsókn um sölu ekki þau skilyrði sem sett eru í ákvæðum reglugerðar þessarar skal ÁTVR gera umsækjanda grein fyrir því og veita honum frest til úrbóta og/eða til að andmæla áður en ákvörðun er tekin um afgreiðslu umsóknarinnar.

10. gr.

Vörukaupasamningur.

Vörukaupasamningur er samningur ÁTVR og birgis um innkaup ÁTVR á tiltekinni vöru. Um samninginn fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

Vörukaupasamningur verður skuldbindandi fyrir ÁTVR og birgi við samþykkt stofnunarinnar á umsókn um sölu samkvæmt 7. gr. reglugerðar þessarar.

Í vörukaupsamningi skulu m.a. koma fram upplýsingar um:

  1. Vöruheiti,
  2. vörunúmer.
  3. vöruverð,
  4. framleiðanda vöru,
  5. árgang vöru,
  6. uppruna vöru,
  7. styrkleika vínanda,
  8. stærð umbúða,
  9. tegund umbúða.

ÁTVR getur lagt inn vörupöntun hjá birgi um leið og vörukaupasamningur er kominn á. Að beiðni birgis er ÁTVR heimilt að fresta því að setja vöru í sölu í verslunum sínum þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Nú fellur vara samkvæmt vörukaupasamingi úr vöruvali ÁTVR þar sem hún nær ekki árangurs­viðmiðum söluflokka og fellur þá vörukaupasamningur um hana þá þegar úr gildi án sér­stakrar tilkynningar.

11. gr.

Vörubreytingar.

Umbúðum og innihaldi vöru sem vörukaupasamningur hefur verið gerður um verður ekki breytt á samningstímanum án samþykkis ÁTVR.

Allar vörubreytingar skulu tilkynntar til ÁTVR sem metur, með hliðsjón af umfangi breytinga á innihaldi og/eða umbúðum, hvort vörubreytingin rúmast innan marka gildandi vörukaupasamnings.

Tilkynningu um vörubreytingu skulu fylgja öll nauðsynleg sýnishorn.

12. gr.

Verðboð.

Birgi er heimilt að sækja um að vara verði tekin í sölu og dreifingu hjá ÁTVR þrátt fyrir að stofnunin hafi gert vörukaupasamning um sömu vöru við annan birgi. Um slíka umsókn fer að öðru leyti samkvæmt 7. gr. reglugerðar þessarar.

ÁTVR skal hafna umsókninni ef:

  1. Varan er í reynsluflokki,
  2. varan er í tímabilsflokki,
  3. varan hefur verið skemur en 6 mánuði í kjarnaflokki eða sérflokki,
  4. verðboð hefur verið gert vegna vörunnar síðastliðna 12 mánuði,
  5. ástæða er til að ætla að umsækjandi geti ekki efnt vörukaupasamning um vöruna,
  6. umsækjandi býður jafnhátt eða hærra vöruverð en samkvæmt gildandi vörukaupasamningi,

Ef umsóknin uppfyllir skilyrði reglugerðar þessarar og engin höfnunarástæðna 2. mgr. á við skal ÁTVR tilkynna seljanda samkvæmt gildandi vörukaupasamningi um umsóknina og veita honum færi á að lækka vöruverð samkvæmt gildandi vörukaupasamningi.

Að verðboði loknu skal gildandi vörukaupasamningi sagt upp samkvæmt almennum reglum. ÁTVR skal gera nýjan vörukaupasamning við þann birgi sem bauð lægra vöruverð. Verðákvæði hins nýja samnings skal vera í samræmi við niðurstöðu verðboðs. Nýr vörukaupasamningur tekur gildi að gildistíma eldri samnings loknum.

Seljanda samkvæmt hinum nýja vörukaupasamningi er óheimilt að hækka verð vörunnar í þrjá mánuði frá gildistöku samningsins.

Verðboð haggar hvorki skipan vöru í söluflokki né dreifingu hennar.

13. gr.

Vöruumboð.

Nú hefur vörukaupasamningur verið felldur úr gildi vegna afhendingardráttar og fyrir ÁTVR liggja áreiðanlegar upplýsingar um að nýr birgir hafi tekið yfir dreifingu á vöru samkvæmt samningnum, t.d. staðfesting frá framleiðanda hennar, þá er ÁTVR heimilt að gera vörukaupasamning við hinn nýja birgi án þess að breyting verði á skipan vörunnar í söluflokki eða dreifingu hennar.

III. KAFLI

Söluflokkar.

14. gr.

Söluflokkar.

Vöruúrval ÁTVR skiptist í fjóra söluflokka: Reynsluflokk, kjarnaflokk, tímabilsflokk og sérflokk.

15. gr.

Árangursviðmið söluflokka.

ÁTVR ákveður árangursviðmið söluflokka og birtir þau á vefsvæði sínu.

Tilfærsla milli söluflokka á grundvelli árangursviðmiða skal eiga sér stað eigi sjaldnar en þrisvar sinnum á ári.

Árangursviðmiðin skulu endurskoðuð reglulega.

16. gr.

Framlegðarskrá.

ÁTVR skal birta mánaðarlega á vefsvæði sínu skrá yfir framlegð allra vara í reynslu-, kjarna- og sérflokki undangengna 12 mánuði.

ÁTVR skal birta á vefsvæði sínu skrá yfir framlegð allra vara í tímabilsflokki að liðnu hverju sölu­tímabili.

17. gr.

Reynsluflokkur.

Í reynsluflokki eru vörur sem ÁTVR tekur til reynslusölu.

Tímabil reynslusölu er að hámarki 16 mánuðir.

Vara sem nær árangursviðmiðum reynsluflokks flyst í kjarnaflokk við næstu tilfærslu milli söluflokka frá því að viðmiðunum er náð.

Vara sem nær ekki árangursviðmiðum reynsluflokks á tímabili reynslusölu fellur úr vöruúrvali ÁTVR nema hún uppfylli skilyrði sérflokks skv. 20. gr. reglugerðar þessarar.

Vara sem fallið hefur úr reynsluflokki er ekki gjaldgeng í reynslusölu á ný fyrr en 12 mánuðum eftir að hún fellur úr flokknum.

18. gr.

Kjarnaflokkur.

Kjarnaflokkur er aðalsöluflokkur ÁTVR og er ætlaður vörum sem njóta mikillar og stöðugrar eftir­spurnar.

Lágmarkstímabil sölu í kjarnaflokki er 12 mánuðir.

Vara sem nær ekki árangursviðmiðum kjarnaflokks fellur úr vöruúrvali ÁTVR við næstu tilfærslu milli söluflokka nema hún uppfylli skilyrði sérflokks sbr. 20. gr. reglugerðar þessarar.

Vara sem hefur fallið úr kjarnaflokki er gjaldgeng í reynsluflokk þegar birgðir í eigu ÁTVR, sem pantaðar voru á meðan varan var í kjarnaflokki, eru uppseldar.

19. gr.

Tímabilsflokkur.

Í tímabilsflokki eru vörur sem eru einungis framleiddar á tilteknum árstíma og/eða vörur sem hefðbundið er að bjóða til sölu á tilteknum árstíma.

ÁTVR setur nánari reglur um tímabilsflokk, þar sem skilgreint er hvaða vörur falla í flokkinn og sölutímabil ákveðið. Reglurnar skal birta á vefsvæði ÁTVR.

ÁTVR skal auglýsa með hæfilegum fyrirvara eftir vörum til sölu í tímabilsflokki á vefsvæði sínu.

20. gr.

Sérflokkur.

Sérflokki er ætlað að tryggja fjölbreytileika og gæði í vöruúrvali ÁTVR.

ÁTVR er heimilt að færa vörur sem ná ekki árangursviðmiðum kjarnaflokks eða reynsluflokks í sérflokk.

Vörur í gjafaumbúðum falla ávallt í sérflokk.

ÁTVR er heimilt að auglýsa eftir vörum til sölu í sérflokki á vefsvæði sínu.

21. gr.

Sérpantanir.

Birgjar geta boðið vörur utan vöruúrvals til sérpöntunar á vefsvæði ÁTVR.

Sérpantaðri vöru verður ekki skilað nema hún teljist ónothæf vegna galla.

ÁTVR getur ákveðið að sá er pantar vöru skuli reiða fram fé til tryggingar greiðslu kostnaðar ÁTVR vegna innkaupa og flutnings hinnar sérpöntuðu vöru. Tryggingafé er endurgreitt reynist varan ófáan­leg.

ÁTVR setur nánari reglur um vörur sem boðnar eru til sérpöntunar, þar sem m.a. skal kveðið á um vöruupplýsingar sem birgjum ber að láta í té, afgreiðslutíma vara og birgðastöðu svo og vöru­könnun ÁTVR. Reglurnar skal birta á vefsvæði stofnunarinnar.

IV. KAFLI

Flokkun vínbúða, vöruúrval og dreifing.

22. gr.

Stærðarflokkar vínbúða.

Vínbúðir skiptast í eftirtalda sex stærðarflokka:

  1. Flokkur K1. Vöruúrval K1 vínbúða skal samanstanda af að minnsta kosti 100 vörum.
  2. Flokkur K2. Vöruúrval K2 vínbúða skal samanstanda af að minnsta kosti 200 vörum.
  3. Flokkur K3. Vöruúrval K3 vínbúða skal samanstanda af að minnsta kosti 300 vörum.
  4. Flokkur K6. Vöruúrval K6 vínbúða skal samanstanda af að minnsta kosti 600 vörum.
  5. Flokkur K8. Vöruúrval K8 vínbúða skal samanstanda af að minnsta kosti 800 vörum.
  6. Flokkur K9. Vöruúrval K9 vínbúða skal samanstanda af að minnsta kosti 1500 vörum.

23. gr.

Grunnvöruúrval.

ÁTVR ákveður grunnvöruúrval vínbúða á grundvelli markmiða íslenskrar áfengislöggjafar, áfengis­stefnu stjórnvalda og með hliðsjón af eftirspurn og væntingum viðskiptavina. Tafla sem sýnir grunnvöruúrval stofnunarinnar skal birt á vefsvæði ÁTVR.

Grunnvöruúrval hvers stærðarflokks vínbúða skiptist í ákveðnum hlutföllum í vöruvalsdeildir eftir megineinkennum vöru.

Vöruvalsdeildir greinast í vörudeildir eftir ítarlegum einkennum vöru. Í hverjum stærðarflokki vínbúða skal vera á boðstólum tiltekinn lágmarksvörufjöldi úr hverri vörudeild. Ef kjarnaflokkur skilar ekki lágmarksvörufjölda í hverja vörudeild bætist sú/þær vörur sem eru næstar á for­gangs­lista til dreifingar, sbr. 24. gr. reglugerðarinnar, við vöruúrvalið þar til tilskildum fjölda í hverri vörudeild er náð.

Grunnvöruúrval skal endurskoðað reglulega.

24. gr.

Forgangur til dreifingar.

Framlegð samkvæmt gildandi framlegðarskrá, sbr. 16. gr. reglugerðarinnar, skal ráða forgangi til dreifingar.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu vörur í kjarnaflokki að jafnaði njóta forgangs um dreifingu umfram vörur í öðrum söluflokkum.

25. gr.

Viðbót við grunnvöruúrval.

Vörur í tímabilsflokki eru viðbót við grunnvöruúrval á meðan sölutímabil þeirra varir.

Dreifing vöru í tímabilsflokki fer eftir eftirspurn og væntingum viðskiptavina og hagkvæmni­sjónarmiðum.

ÁTVR skal birta nánari viðmið um dreifingu vara í tímabilsflokki á vefsvæði sínu fyrir upphaf hvers sölutímabils.

26. gr.

Sérhæft vöruúrval.

ÁTVR er heimilt að ákveða að tilteknar vínbúðir, ein eða fleiri, hafi sérhæft vöruúrval umfram grunn­vöruúrval til þess að svara eftirspurn í viðkomandi vínbúð eftir vörum úr tilteknum vöru­hópum, svo sem víni, bjór eða sterku áfengi.

Sérhæft vöruúrval vínbúða skal endurskoðað reglulega.

ÁTVR skal birta yfirlit yfir sérhæft vöruúrval vínbúða á vefsvæði sínu.

27. gr.

Staðbundið vöruúrval.

ÁTVR er heimilt að ákveða að tilteknar vínbúðir, ein eða fleiri, hafi vöruúrval umfram grunn­vöruúrval vegna staðbundinnar eftirspurnar í viðkomandi vínbúð eftir tilteknum vörum.

Staðbundið vöruúrval skal endurskoðað reglulega.

ÁTVR skal birta yfirlit yfir staðbundið vöruúrval vínbúða á vefsvæði sínu.

28. gr.

Undantekningar vegna hagkvæmni.

Á grundvelli hagkvæmnisjónarmiða getur ÁTVR vikið frá ákvæðum kaflans og gert undantekningar varðandi dreifingu á einstökum vörum.

V. KAFLI

Kröfur til vöru.

29. gr.

Kröfur matvælalöggjafar.

Vörur, merkingar, myndmál og umbúðir skulu vera í samræmi við reglur upprunalands og ákvæði laga nr. 93/1995, um matvæli.

Á umbúðum vöru skulu eftirtalin atriði koma fram með áberandi hætti:

  1. Vöruheiti.
  2. Vöruflokkur.
  3. Magn (lítramál).
  4. Styrkleiki vínanda (miðað við rúmmál).
  5. Dagsetning um neyslutíma (lágmarksgeymsluþol, "best fyrir" eða "síðasti notkunardagur") ef við á.

Vara sem hefur merki lífrænnar ræktunar skal hafa hlotið viðurkennda vottun.

Áldósir skulu vera með áföstum flipa.

ÁTVR getur krafið birgi um upplýsingar sem staðfesta uppruna vöru.

ÁTVR er heimilt að hafna vöru ef hún uppfyllir ekki viðeigandi skilyrði ákvæða laga nr. 93/1995, um matvæli og/eða stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru á grundvelli laganna.

30. gr.

Koffein og önnur örvandi efni.

ÁTVR er heimilt að hafna vöru sem inniheldur koffein og/eða önnur örvandi efni.

31. gr.

Sérstakar kröfur til vöru.

ÁTVR er heimilt að hafna vöru ef innihald hennar, umbúðir eða markaðssetning:

  1. Höfðar sérstaklega til barna eða ungmenna yngri en 20 ára, m.a. hvað varðar texta, mynd­mál eða form,
  2. sýnir börn eða ungmenni yngri en 20 ára,
  3. gefur til kynna að áfengi auki líkamlega, andlega, félagslega eða kynferðislega getu,
  4. gefur til kynna að áfengi hafi lækningaeiginleika,
  5. felur í sér happdrætti, tilboð eða kaupauka,
  6. hvetur til óhóflegrar neyslu áfengis,
  7. tengist aðstæðum þar sem neysla áfengis skapar slysahættu eða er refsiverð,
  8. skírskotar eða hvetur til refsiverðrar háttsemi,
  9. skírskotar eða hvetur til neyslu ólöglegra ávana- og fíkniefna.

32. gr.

Ruglingshætta.

ÁTVR er heimilt að hafna vöru ef umbúðir hennar líkjast svo umbúðum annarrar vöru sem ekki telst áfengi og boðin er til sölu eða auglýst á almennum markaði hér á landi að neytendur geta ekki auðveldlega greint á milli þeirra.

33. gr.

Stærð umbúða.

Lagarmál vöru skal vera meira en 50 millilítrar og að hámarki 5000 millilítrar. Lagarmál fernu eða kassa skal þó vera að lágmarki 500 millilítrar og að hámarki 3000 millilítrar.

34. gr.

Efni umbúða.

ÁTVR samþykkir að jafnaði eftirfarandi umbúðaefni:

  1. Gler- eða leirflösku.
  2. Áldós með áföstum flipa.
  3. Álflösku.
  4. Belg eða kassavín (pappaaskja utan um ál- eða plastpoka með einstreymisloka).
  5. Pappafernu (t.d. tetra-pakk).
  6. Plastflösku (fjölhúðaða).
  7. Kút með krana.

35. gr.

Strikamerki.

Strikamerki, EAN eða UPC, skulu vera á hverri vöru.

36. gr.

Fríhafnarsala.

ÁTVR skal hafna vöru sem ber merki fríhafnarsölu.

37. gr.

Áhengi og fylgihlutir.

ÁTVR getur heimilað að vara sé tímabundið boðin til sölu með áhengjum og/eða fylgihlutum, hafi þeir óverulegt verðgildi og hylji ekki almennar merkingar eða valdi óhagræði við meðferð vörunnar á lager, í flutningi eða við útstillingu í verslun.

38. gr.

Viðkvæmar og óhefðbundnar umbúðir.

ÁTVR er heimilt að hafna vöru sem er í viðkvæmum og/eða óhefðbundnum umbúðum eða ef beita þarf sérstökum aðferðum við framstillingu vörunnar og/eða birgðahald, m.a. vegna lögunar umbúða, umfangs eða verðs vöru.

39. gr.

Takmörkun á vörufjölda.

Vegna jafnræðis- og hagkvæmnisjónarmiða er ÁTVR heimilt að hafna vöru ef vara með sam­bæri­legt innihald er þegar í vöruúrvali og óverulegur munur er á umbúðum.

40. gr.

Gjafaumbúðir.

Gjafaumbúðir skulu uppfylla skilyrði V. kafla reglugerðar þessarar eftir því sem við á.

41. gr.

Ytri smásöluumbúðir.

Ytri smásöluumbúðir skulu uppfylla skilyrði V. kafla reglugerðar þessarar eftir því sem við á.

42. gr.

Sérpöntun vöru.

Sömu kröfur eru gerðar til sérpantaðrar vöru og til vöru sem tilheyrir vöruúrvali ÁTVR, að frátöldum skilyrðum 38. gr. reglugerðar þessarar, sem varða vandkvæði við framstillingu vöru í verslun, og 39. gr. reglugerðarinnar um takmörkun á vörufjölda.

VI. KAFLI

Vörugæði, geymsluþol og gölluð vara.

43. gr.

Vörugæði.

ÁTVR er ávallt heimilt að kalla eftir sýnishorni af innihaldi vöru vegna gæðaeftirlits.

44. gr.

Geymsluþol.

Vara sem ber "best fyrir" merkingu um geymsluþol (síðasti sölu- eða neysludagur) skal að jafnaði eiga eftir a.m.k. tveggja mánaða endingartíma þegar hún berst í vöruhús ÁTVR. ÁTVR getur þó í sérstökum tilvikum heimilað skemmri endingartíma.

45. gr.

Viðkvæm vara.

ÁTVR er heimilt að setja sérstök viðmið um hámarksaldur viðkvæmrar vöru. Viðmiðin skulu birt á vefsvæði ÁTVR.

ÁTVR getur hafnað móttöku vöru sem er eldri en viðmiðaður hámarksaldur.

ÁTVR getur krafist staðfestingar á framleiðsludegi viðkvæmrar vöru.

46. gr.

Gölluð vara.

Birgir skal taka aftur og endurgreiða ÁTVR gallaða vöru. Endurgreiðslan skal eiga sér stað við móttöku birgis á vörunni.

Taki birgir eigi til sín gallaða vöru hefur ÁTVR heimild til að krefja hann um sérstakt gjald fyrir geymslu vörunnar. ÁTVR er heimilt að láta eyða vörunni á kostnað birgis þegar tvær vikur eru liðnar frá því honum var tilkynnt að honum bæri að taka vöruna aftur. ÁTVR er heimilt að draga geymslugjaldið og andvirði vörunnar frá greiðslu til birgis.

VII. KAFLI

Afhending og greiðslukjör.

47. gr.

Afhending vöru.

Hver vörupöntun skal afhent sérstaklega í vöruhús ÁTVR að Stuðlahálsi í Reykjavík. Þó getur ÁTVR við sérstakar aðstæður samið við birgja um afhendingu á vörum á öðrum dreifingarstað sem ÁTVR tilgreinir.

Reikningur vegna vörupöntunar skal berast ÁTVR einum virkum degi fyrir afhendingu hennar.

Strikamerki, frábrugðið strikamerki vöru, skal að jafnaði vera á hverjum vörukassa.

Sé magn afhentrar vöru meira en sem svarar einu lagi á bretti skal varan afhent á EUR vörubretti. Andvirði vörubretta skal innifalið í vöruverði. Mesta hæð vöru og brettis er 1,5 metrar. Sé hleðsla á bretti umfram 0,7 metrar skal vefja vöru í plastfilmu.

Hver pöntun skal merkt með pöntunarnúmeri ÁTVR á plastfilmu, kassa eða vörubretti.

Óheimilt er að afhenda sömu vöru í ólíkum umbúðum á sama pöntunarnúmeri.

ÁTVR getur hafnað viðtöku vöru sem uppfyllir ekki framangreind skilyrði.

48. gr.

Afhendingardráttur.

ÁTVR hefur heimild til að fella vörukaupasamning úr gildi og afpanta allar óafgreiddar pantanir ef vara er ekki afhent innan 60 daga frá því að innkaupapöntun var gerð.

49. gr.

Greiðslukjör.

Birgir vöru í reynslu- eða tímabilsflokki lánar ÁTVR vöruna á sölutíma hennar. ÁTVR greiðir birgi fyrir selda vöru í reynslu- og tímabilsflokki að jafnaði eigi síðar en á tíunda degi eftir lok sölu­mánaðar. Innan hálfs mánaðar frá lokum sölutímabils skal birgir taka óselda vöru til baka.

Greiðsludagar fyrir vörur í kjarna og sérflokki eru sextánda og síðasta dag hvers mánaðar eða næsta vinnudag ef greiðsludag ber upp á frídag.

VIII. KAFLI

Verð og verðbreytingar.

50. gr.

Verð.

Um álagningu ÁTVR fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak. Smásöluverð úr vínbúð skal jafnað á næstu krónu.

ÁTVR skal birta smásöluverð á vefsvæði sínu.

51. gr.

Verðbreytingar.

Birgir getur að jafnaði ekki breytt verði vöru oftar en mánaðarlega. Verðbreytingar á vörum í eigu ÁTVR eru háðar samþykki stofnunarinnar.

Verðbreytingar miðast að jafnaði við fyrsta dag mánaðar og skulu tilkynntar til ÁTVR eigi síðar en tuttugasta dag undangengins mánaðar.

Við verðbreytingar á vöru í reynsluflokki skal ljúka uppgjöri á þegar seldri vöru, færa birgðir óseldrar vöru af lager og skrá hana aftur samkvæmt reikningi birgis á nýju verði áður en sala hefst á ný.

IX. KAFLI

Lagastoð og gildistaka.

52. gr.

Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 11. gr. laga nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak.

53. gr.

Gildistaka og brottfall.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 755/2011, um vöruval og sölu áfengis og skilmálar í viðskiptum við birgja, með síðari breytingum.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 10. desember 2015.

F. h. r.

Ingibjörg Helga Helgadóttir.

Benedikt S. Benediktsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica