REGLUGERÐ
um mat á umhverfisáhrifum.
1. KAFLI
Markmið, gildissvið o.fl.
1. gr.
Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja að fram fari mat á umhverfisáhrifum
áður en tekin er ákvörðun um framkvæmdir sem kunna vegna staðsetningar, starfsemi sem þeim fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag, svo og að tryggja að slíkt mat verði fastur liður í gerð skipulagsáætlana. Til þess að ná þessu markmiði skal meðal annars tryggja aðgang almennings að upplýsingum og gögnum um framkvæmdir sem geta haft umtalsverð áhrif á umhverfið áður en þær hefjast.
2. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um allar framkvæmdir sem kunna að hafa umtalsverð áhrif áumhverfi, náttúruauðlindir og samfélag. Við framkvæmd á mati á umhverfisáhrifum skal beita ákvæðum skipulagslaga nr. 19/ 1964 og ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 318/ 1985, ásamt síðari breytingum.
Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda, hefja framkvæmdir, eða staðfesta skipulagsáætlanir samkvæmt skipulagslögum nr. 19/1964, ásamt síðari breytingum, nema ákvæða reglugerðar þessarar hafi verið gætt.
3. gr.
Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari merkir.
Almennar leiðsögureglur: Leiðbeiningar, einkum ætlaðar framkvæmdaaðilum og ráðgjöfum þeirra, um tilhögun mats á umhverfisáhrifum, tengsl við önnur lög og reglugerðir og viðurkennda starfshætti.
Framkvæmdaraðili: Ríki, sveitarfélag, stofnun eða fyrirtæki í eigu slíkra aðila að nokkru eða hluta, lögaðili eða einstaklingur er hyggst hefja framkvæmdir sem reglugerð þessi tekur til. Framkvæmdaraðili er verkkaupi þar sem verksamningur liggur til grundvallar réttarsambandi aðila.
Frumathugun: Mat skipulagsstjóra ríkisins á tilkynningu og fylgigögnum um framkvæmd ásamt úrskurði hans.
Leyfisveitandi: Stjórnvald sem veitir leyfi til að hefja framkvæmdir.
Lögbundnir umsagnaraðilar: Lögbundnir aðilar samkvæmt ýmsum lögum.
Mótvægisaðgerðir: Ráðstafanir sem gerðar eru til að forðast, draga úr og ef hægt er, koma í veg fyrir umhverfisspjöll.
Önnur athugun: Afgreiðsla skipulagsstjóra ríkisins á niðurstöðum framkvæmdaraðila úr frekara mati á umhverfisáhrifum, ef þess er krafist eftir frumathugun.
4. gr.
Framkvæmd reglugerðarinnar.
Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerð þessi tekur til. Hann ákveður hvort framkvæmdir sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og ekki eru taldar upp í 7. gr. þessarar reglugerðar, þurfa að fara í mat á umhverFisáhrifum samkvæmt. 8. gr.
Skipulagsstjóri ríkisins annast afgreiðslu matsskyldra framkvæmda samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.
Framkvæmdaraðili sér um mat á umhverfisáhrifum og ber kostnað af því.
Skipulagsstjóri ríkisins setur almennar leiðsögureglur um framkvæmd og kynningu matsins að teknu tilliti til sérákvæða í lögum.
5. gr.
Mat á umhverfisáhrifum.
Í mati á umhverfisáhrifum skal tilgreina á viðeigandi hátt, bein og óbein, jákvæð og neikvæð, skammtíma og langtíma, afturkallanleg og óafturkallanleg áhrif sem framkvæmdir og fyrirhuguð starfsemi, sem þeim fylgir, kunna að hafa á menn, samfélag og menningu, menningararf, dýr, plöntur og aðra þætti lífríkis, jarðveg, vatn, loft, veðurfar, jarðmyndanir, landslag og samverkan þessara þátta. Þar skal og gera grein fyrir áhrifum framkvæmda á efnisleg verðmæti og því hvaða forsendur liggi til grundvallar matinu.
2. KAFLI.
Framkvæmdir háðar mati á umhverfisáhrifum.
6. gr.
Flokkun framkvæmda.
Framkvæmdum sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum er skipt í tvo flokka. Annars vegar eru framkvæmdir sem ávallt skulu háðar mati á umhverfisáhrifum og taldar eru upp í 7. gr., og hins vegar framkvæmdir sem háðar eru mati þegar þær eru taldar geta haft umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. 8. gr. Skal framkvæmdaraðili tilkynna matsskylda framkvæmd til skipulagsstjóra ríkisins eins snemma á undirbúningsstigi og kostur er.
7. gr.
Framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum.
Eftirtaldar framkvæmdir er ávallt skylt að meta:
1. Vatnsorkuvirkjanir með uppsett afl 10 MW eða meira eða vatnsmiðlanir þar sem meira en 3 km2 lands fara undir vatn vegna stíflugerðar og vatnsvega og/eða breytinga á árfarvegi.
2. Jarðvarmavirkjanir með varmaafl 25 MW eða meira að hráorku eða 10 MW uppsett afl eða meira og önnur varmaorkuver með 10 MW uppsett afl eða meira.
3. Lagningu háspennulína með 33 kV spennu eða hærri.
4. Efnistökustaði (malarnám) á landi 50.000 m2 eða stærri að flatarmáli eða þar sem fyrirhuguð efnistaka er meiri en 150.000 m3.
5. Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn utan byggða.
6. Förgunarstöðvar fyrir eitraðan og hættulegan úrgang og almennar sorpeyðingastöðvar þar sem skipuleg förgun á úrgangi fer fram.
7. Verksmiðjur þar sem fram fer frum- eða endurbræðsla á steypujárni, stáli og áli.
8. Efnaverksmiðjur.
9. Lagningu nýrra vega, járnbrauta og flugvalla.
10. Hafnir sem skip stærri en 1.350 tonn geta siglt um.
Enn fremur skal meta umhverfisáhrif framkvæmda sem taldar eru upp í viðauka I með reglugerð þessari.
8. gr.
Framkvæmdir háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær
kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
Ráðherra er heimilt að ákveða að tiltekin framkvæmd eða framkvæmdir, sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir eða samfélag, en ekki er getið í 7. gr. verði háðar mati á umhverfisáhrifum. Þetta getur meðal annars átt við um framkvæmdir sem taldar eru upp í viðauka II. Áður en ákvörðun er tekin um að tiltekin framkvæmd skuli fara í mat á umhverfisáhrifum leitar ráðherra álits skipulagsstjóra og umsagnar framkvæmdaraðila, leyfisveitanda og hlutaðeigandi sveitarstjórna.
Telji framkvæmdaraðili og/eða viðkomandi leyfisveitandi að tiltekin framkvæmd kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. 1. mgr., ber þeim að tilkynna framkvæmdina til ráðherra. Almenningi er heimilt að tilkynna slíka fyrirhugaða framkvæmd til ráð herra. Í leiðsögureglum, samkvæmt 3. gr., skulu upptalin þau atriði sem hafa ber til hliðsjónar, þegar metið er hvort framkvæmd kunni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.
3. KAFLI.
Frumathugun.
9. gr.
Frumathugun.
Áður en sótt er um leyfi til framkvæmdar sem háð er mati samkvæmt reglugerð
þessari skal framkvæmdaraðili senda skipulagsstjóra ríkisins tilkynningu um hana ásamt fylgigögnum. Í fylgigögnum með tilkynningu skal lýsa framkvæmd, m.a. stað, hönnun og umfangi, verkáætlun, hugsanlegri umhverfisröskun, sbr. 5. gr., og fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum. Jafnframt skulu koma fram markmið framkvæmdar og ef við á upplýsingar um hvernig markmið falla að stefnumörkun stjórnvalda, ásamt upplýsingum um aðra kosti sem kannaðir hafa verið í sambandi við staðarval eða tilhögun framkvæmdar eftir því sem við á.
Frumathugun hefst þegar tilkynningu, ásamt fullnægjandi fylgigögnum samkvæmt 1. mgr, hefur verið skilað til skipulagsstjóra.
10. gr.
Birting tilkynningar.
Skipulagsstjóri birtir tilkynningu um viðkomandi framkvæmd, ásamt fylgigögnum, innan tveggja vikna frá því að frumathugun hefst samkvæmt 10. gr. Tilkynninguna skal birta með opinberri auglýsingu.
Þegar fylgigögn tilkynningar eru umfangsmikil er heimilt að birta útdrátt úr þeim í auglýsingu þar sem fram komi hvers konar framkvæmd um er að ræða, staður, staðhættir og hvar nálgast megi fylgigögn framkvæmdaraðila.
Skriflegum athugasemdum skal skila til skipulagsstjóra innan fimm vikna frá birtingu auglýsingar.
11. gr.
Samráð við frumathugun.
Skipulagsstjóri ríkisins skal óska eftir umsögnum frá lögboðnum umsagnaraðilum. Þeim skal send tilkynning um framkvæmd ásamt fylgigögnum innan tveggja vikna frá því að tilkynning berst skipulagsstjóra. Jafnframt getur skipulagsstjóri leitað eftir áliti sérfróðra aðila eftir því sem þörf krefur.
Umsagnir skulu vera skriflegar og þurfa að hafa borist skipulagsstjóra innan þriggja vikna frá því að tilkynning berst umsagnaraðilum í hendur nema um annað sé sérstaklega samið.
Umsagnaraðilum ber að gera rökstudda grein fyrir því hvaða þættir framkvæmdar kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, meta fyrirhugaðar og/eða benda á mögulegar mótvægisaðgerðir.
12. gr.
Úrskurður skipulagsstjóra ríkisins eftir frumathugun.
Í frumathugun skal skipulagsstjóri ríkisins kanna tilkynningu og fylgigögn framkvæmdaraðila með tilliti til þeirra þátta sem taldir eru upp í 5. gr. Ennfremur skal hann meta umsagnir og athugasemdir sem borist hafa.
Innan átta vikna frá því að skipulagsstjóri hefur birt tilkynningu framkvæmdaraðila skal hann kveða upp rökstuddan úrskurð á grundvelli frumathugunar.
Í úrskurði skal felast:
að fallist er á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða. Þetta á við þegar upplýsingar í tilkynningu um framkvæmd og fylgigögnum teljast fullnægjandi og ljóst er að framkvæmd hefur ekki umtalsverð umhverfisáhrif, óæskileg umhverfisáhrif megi fyrirbyggja með mótvægisaðgerðum eða þau séu ásættanleg vegna þess ávinnings sem af framkvæmd hlýst, eða
að ráðist skuli í frekara mat á umhverfisáhrifum. Þetta á við þegar upplýsingar sem fram komu í tilkynningu um framkvæmd og fylgigögnum teljast ekki nægar, eða ljóst er að kanna þarf frekar ákveðna þætti framkvæmdar eða starfsemi, sem haft getur í för með sér óæskileg umhverfisáhrif.
Þegar úrskurður skipulagsstjóra liggur fyrir skal hann kynntur framkvæmdaraðila, umsagnaraðilum og sveitarstjórnum sem hlut eiga að máli. Jafnframt skal birta úrskurðinn með opinberri auglýsingu.
4. KAFLI.
Frekara mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.
13. gr.
Frekara mat á umhverfisáhrifum.
Hafi skipulagsstjóri úrskurðað að þörf sé á frekara mati á umhverfisáhrifum skal framkvæmdaraðili meta þá þætti sem tilgreindir eru í úrskurðinum. Þegar mati framkvæmdaraðila lýkur skilar hann skýrslu til skipulagsstjóra með rökstuddum niðurstöðum.
14. gr.
Skýrsla framkvæmdaraðila.
Í skýrslu skal vera efnisyfirlit, lýsing á framkvæmd, staðháttum, náttúrufari og umhverfi, spár um umhverfisáhrif framkvæmdar, aðferðum notuðum við þær, mótvægisaðgerðum og tæknilegum annmörkum svo og aðrar upplýsingar í samræmi við úrskurð skipulagsstjóra, sbr. leiðsögureglur. Skýrslunni skal fylgja ágrip þar sem fram koma helstu efnisatriði.
15. gr.
Önnur athugun.
Önnur athugun hefst þegar skýrsla um frekara mat á umhverfisáhrifum berst skipulagsstjóra ríkisins.
16. gr.
Birting niðurstaðna úr frekara mati.
Skipulagsstjóri skal birta niðurstöður úr frekara mati á umhverfisáhrifum, sbr. 13. og 14. gr., með opinberri auglýsingu innan tveggja vikna frá því að skýrsla framkvæmdaraðila barst.
Í auglýsingu skal birta útdrátt úr matsgögnum þar sem fram komi hvers konar framkvæmd um er að ræða, staður, staðhættir og niðurstöður matsins. Jafnframt skal koma fram hvar nálgast megi skýrslu framkvæmdaraðila.
Skriflegum athugasemdum skal skila til skipulagsstjóra innan fimm vikna frá birtingu auglýsingar.
17. gr.
Samráð við aðra athugun.
Skipulagsstjóri skal óska eftir umsögnum frá lögboðnum umsagnaraðilum við aðra athugun og senda þeim skýrslu framkvæmdaraðila innan tveggja vikna frá því að skipulagsstjóri hefur móttekið hana. Jafnframt getur skipulagsstjóri leitað eftir áliti sérfróðra aðila eftir því sem þörf krefur.
Umsagnir skulu vera skriflegar og þurfa að hafa borist skipulagsstjóra innan þriggja vikna frá því að skýrslan berst umsagnaraðilum í hendur nema um annað sé sérstaklega samið.
Umsagnaraðila ber að kanna hvort fjallað sé á fullnægjandi hátt í skýrslu framkvæmdaraðila um þá þætti framkvæmdar sem tilteknir eru í úrskurði skipulagsstjóra.
Umsagnaraðila ber að meta hvort mótvægisaðgerðir sem tilgreindar eru og heyra undir stjórnsýslusvið hans, séu fullnægjandi.
18. gr.
Úrskurður skipulagsstjóra ríkisins eftir aðra athugun.
Innan átta vikna frá því að skipulagsstjóri hefur birt niðurstöður frekara mats á umhverfisáhrifum skal hann kveða upp rökstuddan úrskurð á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Þegar úrskurður skipulagsstjóra liggur fyrir skal hann kynntur framkvæmdaraðila, umsagnaraðilum og sveitarstjórnum sem hlut eiga að máli. Jafnframt skal birta útdrátt úr úrskurðinum með opinberri auglýsingu. Skal almenningur eiga greiðan aðgang að úrskurðinum.
Í úrskurði skal felast:
að fallist er á viðkomandi framkvæmd með eða án skilyrða. Þetta á við þegar ljóst er að framkvæmd hefur ekki umtalsverð umhverfisáhrif, óæskileg umhverfisáhrif megi fyrirbyggja með mótvægisaðgerðum, eða þau séu ásættanleg vegna ávinnings sem af framkvæmd hlýst, eða
að lagst er gegn viðkomandi framkvæmd. Þetta á við þegar ljóst þykir að framkvæmdin muni hafa umtalsverð óæskileg áhrif sem ekki verði komist fyrir með fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum og ávinningur nægi ekki til að vega á móti þeim, eða
að krafa er gerð um frekari könnun einstakra þátta. Þetta á við þegar niðurstöður frekara mats teljast ekki fullnægjandi, eða ljóst er að kanna þarf frekar ákveðna þætti framkvæmdar eða starfsemi sem haft getur í för með sér óæskileg umhverfisáhrif, eða framkvæmdaraðili hefur ekki skilað inn gögnum sem beðið var um í frekara mat á umhverfisáhrifum. Þegar könnun framkvæmdaraðila lýkur skilar hann skýrslu til skipulagsstjóra með rökstuddum niðurstöðum og skal málsmeðferð vera samkvæmt 14.-18. gr. reglugerðarinnar.
5. KAFLI.
Skipulagsáætlanir og mat á umhverfisáhrifum.
19. gr.
Mat á umhverfisáhrifum og skipulag.
Við gerð skipulagsáætlana, samkvæmt skipulagslögum nr. 19/1964, skal gera grein fyrir þeim framkvæmdum sem eru fyrirhugaðar og háðar mati á umhverfisáhrifum.
Í greinargerð með skipulagsáætlun skal lýst þeim kostum sem til greina koma varðandi staðarval og þeir bornir saman með tilliti til áhrifa á umhverfið. Þar skal jafnframt koma fram hvort mat á umhverfisáhrifum hafi þegar farið fram á einstökum fyrirhuguðum framkvæmdum. Einnig skal koma fram hvaða framkvæmdir sem ráðgerðar eru samkvæmt skipulagsáætluninni munu ekki heimilaðar nema mat á umhverfisáhrifum fari fram.
6. KAFLI.
Málskotsréttur.
20. gr.
Málskotsréttur.
Úrskurð, sbr. 12. og 18. gr., má kæra til ráðherra innan fjögurra vikna frá því að hann er birtur eða kynntur viðkomandi málsaðila.
Áður en ráðherra kveður upp úrskurð sinn skal hann leita umsagnar skipulagsstjóra, framkvæmdaraðila, leyfisveitenda og sveitarstjórna sem hlut eiga að máli.
Ráðherra skal kveða upp rökstuddan úrskurð innan átta vikna frá því er beiðni barst honum.
7. KAFLI.
Leyfisveitingar, eftirlit o.fl.
21. gr.
Endurtekning á mati á umhverfisáhrifum.
Verði veruleg breyting á þeim forsendum sem lagðar voru til grundvallar við mat á umhverfisáhrifum, er framkvæmdaraðila heimilt að endurtaka matið og óska eftir nýjum úrskurði skipulagsstjóra ríkisins og skal málsmeðferð vera skv. 11.-13. gr. reglugerðar þessarar.
Hafi framkvæmd tafist verulega umfram verkáætlun, sem leyfisveiting byggir á, skal það tilkynnt skipulagsstjóra ríkisins og getur hann þá ákveðið að mat á umhverfisáhrifum skuli endurtekið og skal málsmeðferð vera skv. 11.-l3.gr. reglugerðar þessarar.
22. gr.
Framkvæmdaleyfi.
Í leyfi til framkvæmda ber leyfisveitanda að taka fullt tillit til niðurstaðna mats á umhverfisáhrifum og úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins.
23. gr.
Eftirlit.
Eftirlit með framkvæmdum sem skipulagsstjóri hefur úrskurðað um, samkvæmt 12. og 18. gr., og veitt hefur verið leyfi fyrir, er í höndum leyfisveitanda.
Komi upp ágreiningur milli leyfisveitanda og framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum sker umhverfisráðherra úr.
8. KAFLI.
Gildistaka o.fl.
24. gr.
Viðurlög.
Brot gegn reglugerð þessari varða sektum. Um meðferð þeirra fer að hætti opinberra mála.
25. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 15. gr. laga nr. 63/ 1993 um mat á umhverfisáhrifum, ásamt breytingu nr. 110/1993 á þeim lögum, að teknu tilliti til skipulagslaga nr. 19/1964 með síðari breytingum, sbr 3. mgr. 4. gr. laga nr. 63/1993 og öðlast þegar gildi.
Umhverfisráðuneytið, 22. mars 1994.
Össur Skarphéðinsson.
Magnús Jóhannesson.
VIÐAUKI I. sbr. fylgiskjal laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum.
Framkvæmdir sem alltaf eru háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 8. gr. reglugerðar:
1. Olíuhreinsunarstöðvar (þó ekki fyrirtæki sem framleiða eingöngu smurolíur úr hráolíu) og mannvirki fyrir kolagösun og þéttingu úr a.m.k. 500 tonnum af kolum eða jarðbiksleir á dag.
2. Varmaorkuver og önnur brennsluver með a.m.k. 300 megavatta hitaafköst og kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfur (nema rannsóknastöðvar með yfir 1 kílóvatts heildarhitaafköst þar sem fram fer umbreyting á kjarnakleyfum efnum og tímgunarefnum).
3. Mannvirki eingöngu ætluð til langtímageymslu eða endanlegrar geymslu á geislavirkum úrgangi.
4. Verksmiðjur með blandaða framleiðslu þar sem fram fer frumbræðsla á steypujárni og stáli.
5. Mannvirki fyrir asbestnám og vinnslu og úrvinnslu á asbesti og afurðum sem innihalda asbest: fyrir afurðir úr asbestsementi með ársframleiðslu sem er yfir 20.000 tonn af fullunnum vörum, fyrir núningsþolin efni með ársframleiðslu sem er yfir 50 tonn af fullunnum vörum og fyrir aðra notkun asbests ef notkun er meiri en sem nemur 200 tonnum á ári.
6. Efnaverksmiðjur með blandaða framleiðslu.
7. Lagning vega, hraðbrauta1 og langra járnbrauta, svo og flugvalla2 með 2.100 m langa meginflugbraut eða lengri.
8. Viðskiptahafnir, skipgengar vatnaleiðir og innhafnir sem skip stærri en 1.350 tonn geta siglt um.
9. Förgunarstöðvar þar sem eitraður og hættulegur úrgangur er brenndur, hlýtur efnameðhöndlun eða er urðaður.
1 Í þessari tilskipun merkir hraðbraut": hraðbraut samkvæmt skilgreiningu í Evrópusamningnum um aðalumferðaræðar milli landa frá 15. nóvember 1975.
2 Í þessari tilskipun merkir "flugvöllur": flugvöllur samkvæmt skilgreiningunni í Chicago- samþykktinni frá 1944 um stofnun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (14. viðauki).
VIÐAUKI II.
Á eftirfarandi lista eru dæmi um framkvæmd og rekstur sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Lista þennan skal hafa til hliðsjónar þegar metið er hvort tilkynna beri fyrirhugaða framkvæmd, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar.
1. Orkumál.
1.1. Stöðvar þar sem unnið er rafmagn, gufa og heitt vatn og tengd mannvirki.
1.2. Búnaður til að flytja raforku, vatn, gufu, olíu og gas.
1.3. Birgðageymslur fyrir jarðefnaeldsneyti ofanjarðar og neðan.
1.4. Stöðvar þar sem geislavirkum úrgangi er safnað saman eða hann unninn.
1.5. Jarðborun vegna jarðhita- og neysluvatns.
1.6. Olíuvinnsla.
1.7. Jarðgasvinnsla.
2. Málmvinnsla.
2.1. Málmsteypur.
2.2. Stálsmíði og stálskipagerð.
2.3. Völsunar-, víra- og stangaverksmiðjur.
2.4. Nagla- og skrúfuframleiðsla.
2.5. Vélaframleiðsla
2.6. Blikksmiðjur.
2.7. Vinnsla á málmum í raftækniðnaði, t.d. rafgeymaverksmiðjur og verkstæði.
2.8. Zink- og krómhúðun málma.
2.9. Brotajárnsgeymslur.
3. Glerframleiðsla.
3.1. Verksmiðjuframleiðsla á gleri.
4. Efnaiðnaður.
4.1. Olíumalar- og malbikunarstöðvar.
4.2. Lím- og málningarvöruframleiðsla.
4.3. Hreinlætisvöruframleiðsla.
4.4. Lyfja- og snyrtivöruframleiðsla.
4.5. Efnalaugar.
4.6. Plastframleiðsla.
4.7. Prentiðnaður.
5. Sjávarútvegur.
5.1. Eldi sjávarlífvera.
5.2. Þang- og þaraskurður.
5.3. Veiðar botndýra á grunnsævi.
6. Landbúnaður.
6.1. Framkvæmdir er breyta landnotkun eða landnýtingu utan þéttbýlis.
6.2. Áveitur eða framræsla.
6.3. Nýræktun skóga og uppgræðsla lands.
6.4. Búfjár- og dýrahald.
6.5. Fisk- og seiðaeldisstöðvar og hvers konar annað eldi sjávar- og ferskvatnslífvera.
7. Jarðefnavinnsla.
7.1. Vinnsla jarðefna, s.s. leirs, sands, malar, skeljasands, vikurs, gjalls, kísilgúrs, salts og hvers konar bergs til mannvirkjagerðar og iðnaðar.
7.2. Málmgrýtisvinnsla.
8. Matvælaiðnaður.
8.1. Sláturhús.
8.2. Kjötvinnsla.
8.3. Framleiðsla á mjöli og feiti úr sláturúrgangi.
8.4. Mörbræðsla og tólgarframleiðsla.
8.5. Niðursuðuverksmiðjur.
8.6. Reykhús og reykofnar.
8.7. Vinnsla fisks og annarra sjávarafurða.
8.8. Lifrarbræðsla.
8.9. Fituhersla.
8.10. Fiskimjölsverksmiðjur.
8.11. Mjólkurstöðvar.
8.12. Framleiðsla mjólkurdufts.
8.13. Smjörlíkisgerð.
8.14. Kaffibrennsla.
8.15. Kartöfluvinnsla.
8.16. Framleiðsla á kartöflumjöli og sterkju.
8.17. Kæli- og frystigeymslur.
8.18. Öl-, gos- og svaladrykkjargerð.
8.19. Sykurverksmiðjur.
8.20. Sælgætis- og sýrópsgerð.
9. Textíl-, leður-, timbur- og pappírsiðnaður.
9.1. Verksmiðjur þar sem fram fer ullarþvottur, fitusneyðing og bleiking.
9.2. Framleiðsla á trefjaplötum, spónaplötum og krossviði.
9.3. Framleiðsla á trjákvoðu, pappír og pappa.
9.4. Trefjalitunarverksmiðjur.
9.5. Vinnsla og framleiðsla á beðmi.
9.6. Sútunarstöðvar og skinnaverkun.
10. Gúmmíiðnaður.
10.1. Framleiðsla og meðhöndlun vara úr teygjanlegum gerviefnum
11. Starfsemi er snertir vélknúin farartæki.
11.1. Kappaksturs-, æfinga- og kennslubrautir.
11.2. Bifreiða- og vélaverkstæði.
11.3. Ryðvarnarverkstæði.
11.4. Smurstöðvar.
11.5. Bensínstöðvar.
12. Aðrar framkvæmdir.
12.1. Endurvinnslustöðvar.
12.2. Útrásadælustöðvar
12.3. Skólphreinsistöðvar.
12.4. Förgunarsvæði fyrir úrgang skólphreinsistöðva (seyru).
12.5. Spennistöðvar.
12.6. Prófunarstöðvar fyrir vélar, hverfla eða "reaktora".
12.7. Framleiðsla, pökkun og hleðsla skothylkja með púðri og sprengiefnum.
12.8. Orlofsþorp, hótel eða fjallaskálar.
12.9. Bygging skíðalyftna og kláfa.
12.10. Skurðgröftur og flóðgarðagerð.
12.11. Stíflugerð og fiskvegir.
12.12. Vatnsmiðlanir og breytingar á árfarvegi.
12.13. Lagning vatnsveitna.
12.14. Landfyllingar.
12.15. Hafnagerð.