1. gr.
Dýralæknar sem lokið hafa prófi við dýralæknaháskóla, sem landbúnaðarráðuneytið viðurkennir, og óska eftir leyfi til þess að stunda dýralækningar hér á landi, sbr. lög 77/1981 um dýralækna, skulu senda skriflega umsókn ásamt prófvottorðum og vottorðum um að ákvæðum þessarar reglugerðar sé fullnægt til landbúnaðarráðuneytisins.
Landbúnaðarráðherra veitir leyfi til dýralækninga á Íslandi að fengnum meðmælum yfirdýralæknis.
2. gr.
Dýralæknakandidat, sem óskar eftir dýralækningaleyfi, skal á síðasta námsári eða að prófi loknu, ljúka eftirfarandi áður en sótt er um leyfi:
a) Starfa um sex vikna skeið undir haldleiðslu héraðsdýralæknis eða héraðsdýralækna.
b) Starfa í fjórar vikur undir handleiðslu dýralæknis við stofnun, sem nefnd sú er starfar skv. 3. gr. hefur viðurkennt.
c) Kynna sér sérstaklega búfjársjúkdóma sem algengir eru hér á landi og sögu þeirra.
d) Kynna sér ítarlega helstu lög og reglur sem varða starfsemi dýralækna, svo sem um heilbrigðiseftirlit, smitsjúkdóma búfjár, innflutning búfjár, lyfjamál, dýraverndarmál, réttindi og skyldur dýralækna, starfsreglur þeirra og gjaldskrá.
Yfirdýralæknir skal, að höfðu samráði við nefnd þá er starfar skv. 3. gr., jafnan hafa tiltæka skrá yfir lesefni og annað sem dýralæknakandidat þarf að kynna sér skv. c)- og d)-lið þessarar greinar.
3. gr.
Þrír dýralæknar, einn tilnefndur af yfirdýralækni, annar af landbúnaðarráðuneytinu og sá þriðji af Dýralæknafélagi Íslands, skulu sannreyna þekkingu skv. c)- og d)-lið 2. gr. og meta hvort hún telst fullnægjandi. Skal það staðfest með vottorði. Afrit af vottorðinu skal sent yfirdýralækni.
4. gr.
Nú kemur í ljós við próf skv. 3. gr., að dýralæknakandidat hefur ekki kynnt sér þau mál sem um getur í c)- og d)- lið 2. gr. svo að viðhlítandi verði talið og skal honum þá gefinn frestur til frekari undirbúnings, þó eigi lengri en sex vikur, áður en þekking hans er reynd á nýjan leik.
5. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 77/1981 um dýralækna og öðlast gildi 1. maí 1983.
Landbúnaðarráðuneytið, 12. janúar 1983.
Pálmi Jónsson.
Sveinbjörn Dagfinnsson.