I. KAFLI
Gildissvið, skilgreiningar og ábyrgð eigenda mælitækja.
1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til merkinga á eftirlitsskyldum mælitækjum og löggildingartákna sem skylt er að nota hér á landi til staðfestingar á að mælitæki uppfylli kröfur laga og reglna settra samkvæmt þeim.
2. gr.
Skilgreiningar.
Löggildingartákn: er tákn með auðkenni Neytendastofu og skjaldarmerki Íslands sem sýnir að mælitæki hefur verið löggilt þar sem ártal fylgir, ásamt faggildingarnúmeri prófunarstofu, sbr. nánari ákvæði í viðauka við reglugerð þessa um form og útlit hins íslenska löggildingartákns.
Löggildingarmiði: er löggildingartákn sem fest er á mælitæki og sýnir að það hafi löggildingu og sé löggildingarhæft í samræmi við lög og reglur sem gilda um mælitækið, sbr. nánari ákvæði um form og útlit í viðauka.
Innsigli: er tákn sem notað er til að innsigla mælitæki, sbr. nánari ákvæði um form og útlit í viðauka.
Löggildingarhnappur: er löggildingartákn sem notað er sem innsigli, sbr. nánari ákvæði um form og útlit í viðauka.
Mælitæki: er tæki sem ætlað er, eitt sér eða ásamt tilheyrandi og viðurkenndum viðbótartækjum til að framkvæma mælingu.
Löggilding mælitækis: er aðgerð til að tryggja og staðfesta formlega að mælitæki fullnægi öllum kröfum laga og reglugerða og fer hún fram með athugun, merkingu og útgáfu vottorðs og er venjulega lokið með innsiglun á aðgengi stillinga.
Löggildingarhæfi mælitækis: merkir að mælitæki uppfylli kröfur laga og reglna settra samkvæmt þeim um markaðssetningu og fyrstu notkun, séu rétt merkt, rétt upp sett og standist tilskildar prófanir.
Löggildingarsvið: eru þau svið sem löggildingar mælitækja skiptast í og afmarkast af þeim reglugerðum sem fjalla um löggildingar einstakra flokka þeirra utan reglna sem gilda um löggildingar ósjálfvirkra voga þar sem löggildingarsviði er frekar skipt upp.
Samræmismat: er mat á því hvort vara, ferli, kerfi eða aðili uppfylli kröfur.
Tilkynntur aðili: er aðili sem stjórnvöld hafa tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA, framkvæmdastjórnar ESB og annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins að uppfylli kröfur til þess að fást við samræmismat samkvæmt tiltekinni tæknilegri reglugerð.
Prófunarstofa: merkir í reglugerð þessari prófunarstofu sem hlotið hefur umboð til að annast löggildingar mælitækja í umboði Neytendastofu og hlotið faggildingu til löggildingar mælitækja samkvæmt ákvæðum laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og reglna settra samkvæmt þeim.
Ábyrgðaraðili: er eigandi, eða annar ábyrgðaraðili þegar það á við, sem ber ábyrgð á að mælitæki í notkun uppfylli ávallt reglur sem kveðið er á um í lögum og reglum settum samkvæmt þeim og er hann ábyrgur fyrir greiðslu löggildingargjalds í samræmi við ákvæði IX. kafla laga, nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og ber ábyrgð á viðhaldi löggildingar á löggildingarskyldu mælitæki í notkun.
3. gr.
Um ábyrgð eigenda mælitækja.
Ábyrgðaraðili mælitækis ber ábyrgð á að mælitæki í notkun uppfylli ávallt reglur sem kveðið er á um í lögum eða reglum settum samkvæmt þeim.
II. KAFLI
Um útlit löggildingartákna og
merkingar eftirlitsskyldra mælitækja.
4. gr.
Útlit löggildingartákna og innsigla.
Útlit og málsetningar löggildingartákna og innsigla eru skilgreind í viðauka við reglugerð þessa. Neytendastofa lætur prófunarstofu og tilkynntum aðilum í té löggildingartákn, svo og innflytjendum, dreifingaraðilum, seljendum og ábyrgðaraðilum mælitækja, þegar það á við. Ekki má nota önnur löggildingartákn en þau sem Neytendastofa hefur látið í té í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Neytendastofu heimilt að ákveða að gefa út löggildingartákn og innsigli í öðrum stærðum. Löggildingartákn og innsigli skulu vera þannig gerð að þau séu nothæf aðeins í eitt skipti og vera óafmáanleg.
5. gr.
Löggildingartákn, löggildingarhæfi og merking nýs mælitækis við fyrstu notkun.
Mælitæki, sem uppfyllir ákvæði laga og reglugerða um markaðssetningu á Evrópska efnahagssvæðinu telst mæla rétt þegar það er rétt sett á markað og tekið í notkun enda hafi það réttar stillingar fyrir Ísland, er löggildingarhæft mælitæki og telst vera löggilt til fyrstu notkunar.
Mælitæki samkvæmt þessari grein er heimilt að taka í fyrstu notkun án undangenginnar löggildingar af hálfu prófunarstofu enda uppfylli mælitækið allar kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum og reglum er gilda um hlutaðeigandi mælitæki. Ábyrgðaraðili ber ábyrgð á að mælitæki sem tekið er í fyrstu notkun beri rétt merki í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Neytendastofa eða prófunarstofa í umboði hennar getur ávallt óskað eftir að framleiðandi, dreifingaraðili, seljandi eða ábyrgðaraðili mælitækis leggi fram yfirlýsingu um samræmi mælitækisins við kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum eða reglum settum samkvæmt þeim.
Öll ný mælitæki skal merkja með löggildingartákni í samræmi við 1.1. gr. í viðauka reglugerðar þessarar.
6. gr.
Löggildingartákn og löggilding mælitækis.
Prófunarstofa annast framkvæmd reglubundinna löggildinga mælitækja í notkun í samræmi við ákvæði reglugerðar um starfshætti þeirra sem annast löggildingar mælitækja í umboði Neytendastofu og ákvæða í reglugerðum um hlutaðeigandi mælitæki þegar það á við.
Öll mælitæki sem prófunarstofa löggildir í umboði Neytendastofu samkvæmt 1. mgr. skal merkja með viðeigandi löggildingartákni, sbr. 1. og 3. gr. í viðauka við reglugerð þessa.
Notkun löggildingartákna svo sem löggildingarmiða eða innsiglis fer eftir því hvað hæfir mismunandi gerðum mælitækja. Ártal og mánuður á löggildingarmiðum sýnir hvenær löggilding rennur út. Ártal sem þrykkja má í mælitæki eða innsigli sýnir árið þegar löggilding fer fram.
7. gr.
Tilgreining á niðurstöðum mælinga og notkun löggildingartákna.
Hvarvetna þar sem viðskipti fara fram að viðskiptavini viðstöddum og notuð eru mælitæki sem falla undir gildissvið laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn svo og reglna settra samkvæmt þeim skal þannig búið um að viðskiptavinurinn sjái greinilega þegar mæling fer fram og geti lesið mæliniðurstöður fyrirhafnarlaust.
Merking mælitækja með löggildingartákni skal með sama hætti vera þannig gerð að viðskiptavinurinn sjái greinilega og fyrirhafnarlaust að um löggilt mælitæki sé að ræða nema reglur um einstök mælitæki eða mælitækjaflokka heimili annað.
8. gr.
Viðurlög.
Fyrirtæki, eigandi mælitækis, eða ábyrgðaraðili, ef það á við sem brýtur ákvæði reglugerðar þessarar af ásetningi eða gáleysi skal sæta stjórnvaldssektum sem Neytendastofa ákvarðar. Stjórnvaldssektir geta numið allt að 10 millj. króna.
Ákvarðanir Neytendastofu samkvæmt þessari grein eru kæranlegar til áfrýjunarnefndar neytendamála, sbr. 40. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn. Málskot til áfrýjunarnefndar frestar aðför en um málsmeðferð fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga og reglna settra samkvæmt þeim.
Um refsingar og önnur réttarúrræði við brotum á reglugerð þessari fer að öðru leyti eftir ákvæðum XI. kafla, réttarúrræði, viðurlög o.fl. í lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
9. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 44. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og öðlast þegar gildi.
Viðskiptaráðuneytinu, 9. nóvember 2006.
Jón Sigurðsson.
Kristján Skarphéðinsson.
VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)