Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Prentað þann 21. jan. 2025

Breytingareglugerð

682/1999

Reglugerð um breytingu á reglugerð um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs nr. 609/1996

1. gr.

Við 3. gr. bætist ný málsgrein sem orðast svo:
Samsettar umbúðir: umbúðir sem settar eru saman úr mismunandi efnum og ekki er unnt að taka í sundur með handafli.

2. gr.

5. gr. orðast svo:

Auðkenningarkerfi.

Til að greiða fyrir söfnun, endurnotkun og endurnýtingu umbúða og umbúðaúrgangs, þar með talin endurvinnsla, skal tilgreina úr hverju umbúðaefnið/efnin eru gerð til að hægt sé að greina þau og flokka sbr. viðauka II.

Umbúðirnar skulu merktar á viðeigandi hátt, annaðhvort á umbúðirnar sjálfar eða á merkimiða sem á þær er festar. Merkingarnar skulu vera augsýnilegar og auðlæsilegar.

Merkingarnar á umbúðunum skulu vera endingargóðar og greinilegar eftir að umbúðirnar eru opnaðar.

3. gr.

Viðauki II orðast svo:

Auðkenningarkerfi.

Auðkenna skal plast með tölunum 1-19, 20-39 fyrir pappír og pappa, 40-49 fyrir málma, 50-59 fyrir við, 60-69 fyrir textílefni, 70-79 fyrir gler og 80-99 fyrir samsett efni. Í auðkenningarkerfinu má einnig nota viðurkenndar skammstafanir fyrir viðeigandi efni innan hvers flokks fyrir sig.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, í 18. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum, og í samræmi við 7. tölulið XVII. kafla í II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang).

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Umhverfisráðuneytinu, 4. október 1999.

Siv Friðleifsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.