Prentað þann 23. jan. 2025
655/2009
Reglugerð um starfsumhverfi leikskóla.
Efnisyfirlit
- 1. gr. Gildissvið.
- 2. gr. Ábyrgð og samráð.
- 3. gr. Skólahúsnæði, skólalóð og búnaður.
- 4. gr. Skipulag og hönnun.
- 5. gr. Lágmarksaðstaða.
- 6. gr. Fjöldi barna.
- 7. gr. Fjöldi starfsfólks.
- 8. gr. Dvalartími barna.
- 9. gr. Öryggi og slysavarnir.
- 10. gr. Handbók um öryggi barna og slysavarnir í leikskólum.
- 11. gr. Gildistaka.
- Athugasemdir ritstjóra
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til aðstöðu, búnaðar, slysavarna og öryggismála í leikskólahúsnæði og á leikskólalóðum á vegum sveitarfélaga og annarra rekstraraðila, sbr. 25. gr. laga nr. 90/2008, um leikskóla.
2. gr. Ábyrgð og samráð.
Sveitarfélag annast undirbúning og framkvæmd byggingar leikskólahúsnæðis og annarrar aðstöðu fyrir leikskóla á þeirra vegum svo og kaup á tækjum og búnaði fyrir skólana. Við undir-búning nýrra leikskóla og meiriháttar breytinga á eldra húsnæði skal leitað eftir samráði við foreldra og starfsfólk leikskóla.
Þegar um er að ræða rekstur leikskóla á vegum annarra aðila en sveitarfélaga er undirbúningur, gerð nýs skólahúsnæðis, viðhald þess og endurnýjun og viðhald búnaðar á ábyrgð og kostnað hlutað-eigandi rekstraraðila.
3. gr. Skólahúsnæði, skólalóð og búnaður.
Húsnæði, skólalóð og allur búnaður skal uppfylla kröfur laga nr. 90/2008 um leikskóla, reglugerðar þessarar, aðalnámskrár leikskóla og laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Einnig ber að uppfylla kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda til slíkra mannvirkja.
4. gr. Skipulag og hönnun.
Skipulag og hönnun leikskóla skal taka mið af áætluðum hámarksfjölda barna í skólanum, samsetningu og þörfum barnahópsins, aldri barna og lengd dvalartíma.
Við skipulag og hönnun leikskóla skal leitast við að tryggja börnum og starfsfólki skóla öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. Er þar sérstaklega átt við hentugan húsbúnað, hljóðvist og lýsingu, loftgæði og loftræstingu og fjölbreytni í náms- og leikaðstöðu og öðrum búnaði.
5. gr. Lágmarksaðstaða.
Til nauðsynlegrar lágmarksaðstöðu í leikskólum telst:
- deildarrými og viðeigandi aðstaða, búnaður og tækjakostur fyrir leik, nám og hvíld barna samkvæmt lögum um leikskóla og aðalnámskrá leikskóla,
- rými fyrir sérfræðiþjónustu vegna barna með sérþarfir,
- fjölnotarými til hreyfileikja, þjálfunar, listsköpunar og annarra viðburða,
- aðstaða til að neyta málsverða,
- aðskilin hreinlætisaðstaða fyrir börn og starfsfólk,
- þurrkaðstaða fyrir fatnað barna og starfsfólks,
- afmörkuð og skipulögð skólalóð með áherslu á sem mesta fjölbreytni í leik- og námsaðstöðu með tilliti til mismunandi aldurshópa og þarfa, þ.m.t. þarfa fatlaðra barna,
- vinnurými fyrir leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra og annað starfsfólk,
- setustofa fyrir starfsfólk.
6. gr. Fjöldi barna.
Leikskólastjóri, að höfðu samráði við sveitarstjórn eða nefnd sveitarfélags sem fer með málefni leikskóla í sveitarfélaginu, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla og starfsfólk leikskóla, tekur ákvörðun um fjölda barna í leikskóla hverju sinni. Ákvörðun um fjölda barna og skipulag skólastarfs skal taka mið af samsetningu barnahópsins, dvalartíma barna dag hvern, aldri þeirra og þörfum, samsetningu starfsmannahóps og umfangi sérfræðiþjónustu.
Til að ná markmiðum laga um leikskóla og aðalnámskrár skal þess gætt að nægilegt rými sé fyrir hvert barn á hverri deild þar sem meginhluti umönnunar, náms og uppeldis fer fram. Huga ber sérstaklega að því að börn með sérþarfir geti eftir atvikum þurft aukið rými svo sem vegna nauðsynlegra stoðtækja.
Sveitarfélögum er heimilt að binda leyfi sveitarfélags til annarra rekstraraðila við ákveðinn hámarksfjölda barna, sbr. 15. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla. Að öðru leyti fara rekstararaðilar með ákvörðun um fjölda barna, sbr. 1. mgr.
7. gr. Fjöldi starfsfólks.
Sveitarstjórn eða annar rekstaraðili tekur ákvörðun um fjölda og samsetningu starfsmannahóps í samráði við leikskólastjóra. Ákvörðunin skal byggjast á mati og tillögum leikskólastjóra og miðast við aldur, þarfir og fjölda barna. Sé um að ræða börn með sérþarfir skal leita álits viðkomandi greiningaraðila.
8. gr. Dvalartími barna.
Starfsemi og skipulag leikskólastarfs skal taka mið af aldri, þörfum og hagsmunum barna með sérstöku tilliti til daglegs dvalartíma. Æskilegt er að dvalartími barna í leikskóla sé að jafnaði ekki lengri en níu klst. á dag. Gera skal ráð fyrir að börn fái a.m.k. 4 vikna sumarleyfi.
9. gr. Öryggi og slysavarnir.
Húsnæði, lóð, aðstaða, búnaður og öll starfsemi sem börn taka þátt í á vegum leikskóla skal miðast við að öryggi barna sé sem tryggast.
Barn er á ábyrgð skólans á meðan það dvelur þar, þegar það tekur þátt í skipulögðu skólastarfi hvort sem er innan skólans, á lóð skólans eða í ferðum á vegum skólans. Þegar um er að ræða vettvangsferðir leikskólabarna með hópbifreiðum eða í tilvikum skólaaksturs bera sveitarfélög eða aðrir rekstraraðilar ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða um umferðaröryggi.
10. gr. Handbók um öryggi barna og slysavarnir í leikskólum.
Ráðuneytið, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, skal útbúa rafræna handbók fyrir starfsfólk leikskóla með leiðbeinandi reglum um öryggi og velferð barna og slysavarnir í leikskólum. Skal handbókin endurskoðuð reglulega.
Handbókin skal grundvölluð á gildandi lögum og reglugerðum um starfsemi leikskóla, lögum og reglugerðum um öryggis-, skipulags- og byggingarmál og samræmdum starfsleyfisskilyrðum fyrir leikskóla, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum. Einnig skal höfð hliðsjón af reglugerð um vélar og tæknilegan búnað og vinnuumhverfisvísum Vinnueftirlits ríkisins, eftir því sem við á.
Handbókin skal vera aðgengileg opinberlega og ber leikskólastjóri ábyrgð á að hún sé sérstaklega kynnt öllu starfsfólki leikskóla og foreldrum.
11. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 12. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 225/1995 um starfsemi leikskóla.
Athugasemdir ritstjóra
Við áhrif reglugerðar 970/2019, 1. gr er vísað í 2. mgr 3. gr en metið er svo að vísun eigi við 2. mgr 4. gr.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.