Reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra ferðamanna.
Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt til erlendra ferðamanna af varningi sem þeir hafa fest kaup á hér á landi að uppfylltum skilyrðum reglna þessara. Endurgreiða skal 60-75% greidds virðisaukaskatts eftir verði varnings samkvæmt töflu þeirri sem er að finna á fylgiskjali með reglum þessum.
Samkvæmt reglum þessum er einungis heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt til ferðamanna með erlent ríkisfang og erlenda heimilisfesti. Til sönnunar ríkisfangi skal leggja fram vegabréf. Útlendingar með fasta búsetu hérlendis eiga ekki rétt á endurgreiðslum samkvæmt reglum þessum.
Það er skilyrði endurgreiðslu að kaupandi vörunnar hafi hana með sér af landi brott innan 30 daga frá því að kaup gerðust og framvísi henni ásamt tilskildum endurgreiðslugögnum, sbr. 4. gr., við endurgreiðslufyrirtæki eða eftir atvikum tollyfirvöld við brottför.
Til þess að endurgreiðsla samkvæmt reglum þessum fáist verður að uppfylla öll eftirtalinna skilyrða:
a.Kaupandi hafi vöruna á brott með sér úr landi innan mánaðar frá því að kaupin voru gerð.
b.Kaupverð vörunnar nemi minnst 5.000 kr. með virðisaukaskatti.
c.Vörunni sé framvísað ásamt tilskildum gögnum við brottför, sbr. 4. og 6. gr.
Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt af vörum á einum og sama vörureikningi sé kaupverð þeirra samtals 5.000 kr. eða meira ásamt virðisaukaskatti, þó einn eða fleiri munir nái ekki tilskilinni lágmarksfjárhæð.
Við sölu skal fylla út endurgreiðsluávísun þar sem fram komi eftirtaldar upplýsingar:
a. Nafn og heimilisfang seljanda.
b. Dagsetning er kaup gerast.
c. Vörutegund og magn.
d. Verð vörunnar með virðisaukaskatti.
e. Fjárhæð sem óskast endurgreidd.
f. Nafn, heimilisfang og vegabréfsnúmer kaupanda.
Seljandi skal fylla út liði a-e en kaupandi lið f. Frumrit ávísunarinnar þannig útfylltrar skal afhenda kaupanda. Búa skal um vöruna í lokuðum og innsigluðum umbúðum.
Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli annast endurgreiðslur samkvæmt reglum þessum.
Við brottför úr landi um alþjóðaflugvöllinn í Keflavík skal kaupandi framvísa varningi í innsigluðum umbúðum og endurgreiðsluávísun í Fríhöfninni er leysir hana til sín í íslenskum peningum enda séu skilyrði reglna þessara að öðru leyti uppfyllt.
Við brottför annars staðar frá landinu skal varningi í innsigluðum umbúðum framvísað við tollgæsluna sem ganga skal úr skugga um hvort skilyrði endurgreiðslu séu fyrir hendi. Séu öll skilyrði uppfyllt skal tollgæslan staðfesta það með áritun sinni á ávísunina. Kaupandi skal innan þriggja mánaða frá staðfestingu tollyfirvalda senda Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli ávísunina, sem þá mun senda kaupanda endurgreiðsluna í erlendum gjaldeyri.
Reglur þessar sem settar eru samkvæmt heimild í 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, öðlast gildi frá og með 1. janúar 1990.
Fjármálaráðuneytið, 25. október 1989.
Ólafur Ragnar Grímsson
Snorri Olsen
sjá B-deild Stjórnartíðinda.