Veflestur er þjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá
Fjármálaráðuneyti

390/1999

Reglugerð um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum. - Brottfallin

1. gr.

Aðflutningsgjöld.

Í reglugerð þessari er með aðflutningsgjöldum átt við öll gjöld sem greidd eru við innflutning á vörum hingað til lands, þ.m.t. virðisaukaskatt. Ákvæði reglugerðarinnar taka þó hvorki til vörugjalds af ökutækjum né til vörugjalds af eldsneyti.

2. gr.

Réttur til greiðslufrests á aðflutningsgjöldum.

Aðilar sem skráðir eru á virðisaukaskattskrá og gera upp virðisaukaskatt innan lands miðað við tveggja mánaða eða skemmri uppgjörstímabil skulu njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

Aðilar sem samkvæmt virðisaukaskattskrá gera upp virðisaukaskatt miðað við lengri uppgjörstímabil en tvo mánuði geta að fenginni heimild tollstjóra notið greiðslufrests á aðflutningsgjöldum í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar, enda leggi þeir fram tryggingu eins og kveðið er á um í 3. gr. Sama gildir um opinbera aðila, en þeir þurfa þó ekki að leggja fram tryggingu.

Óheimilt er að veita greiðslufrest á aðflutningsgjöldum þegar bráðabirgðatollafgreiðsla fer fram svo og við uppgjör hennar. Sama gildir ef greiða ber tollafgreiðslugjald vegna tollmeðferðar vöru, sbr. reglugerð nr. 107/1997, um greiðslu kostnaðar vegna tollafgreiðslu utan almenns afgreiðslutíma eða utan aðaltollhafna og vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru, með síðari breytingum.

3. gr.

Umsókn um greiðslufrest, tryggingar.

Aðilar sem um ræðir í 2. mgr. 2. gr. skulu sækja um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum til tollstjóra í því tollumdæmi þar sem þeir eiga lögheimili. Umsókn skal borin fram á þar til gerðu eyðublaði sem ríkistollstjóri lætur útbúa og þar veittar þær upplýsingar sem eyðublaðið gefur til kynna. Aðrir en opinberir aðilar skulu skila með umsókn sinni yfirlýsingu banka, sparisjóðs eða viðurkennds tryggingar- eða ábyrgðarfélags um að tekin sé skilyrðislaus sjálfskuldarábyrgð á tiltekinni fjárhæð lánaðra aðflutningsgjalda og skal sú fjárhæð vera hámark þeirrar fjárhæðar sem lánuð er í aðflutningsgjöld auk dráttarvaxta og annars kostnaðar sem leiða kann af vanefndum, sbr. 6. gr.

Umsókn um greiðslufrest skulu fylgja þau gögn sem nauðsynleg eru til staðfestingar og gerð er krafa um í eyðublaði eða tollstjóri telur nauðsynlegt að fá til afgreiðslu umsóknarinnar.

Tollstjóri gefur út staðfestingu til viðkomandi innflytjanda um heimild til greiðslufrests telji hann skilyrði að öðru leyti uppfyllt og gildir hún í öllum tollumdæmum landsins.

4. gr.

Uppgjörstímabil og gjalddagar.

Uppgjörstímabil og gjalddagar einstakra tegunda aðflutningsgjalda, sem skuldfærð hafa verið vegna tollafgreiðslu vara á viðkomandi uppgjörstímabili, eru sem hér segir:

1. Tollar, virðisaukaskattur og önnur aðflutningsgjöld, að undanskildum gjöldum í þeim tilvikum sem tilgreind eru í 2.-3. tölul.: Hvert uppgjörstímabil vegna tollafgreiðslu á vörum sem flokkast undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í viðauka I við reglugerð þessa, er tveir mánuðir: janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október og nóvember og desember. Uppgjörstímabil vegna annarra tollafgreiddra vara skal vera einn mánuður. Gjalddagi er 15. dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

2. Vörugjald innflytjenda sem eru skráðir á vörugjaldsskrá, sbr. 4. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum: Hvert uppgjörstímabil er tveir mánuðir, eins og tilgreint er í 1. tölul. Gjalddagi er 28. dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.

3. Áfengisgjald: Uppgjörstímabil skráðra áfengisinnflytjenda vegna greiðslufrests á áfengisgjaldi við innflutning eru frá 1. til 15. hvers mánaðar og frá 16. til loka hvers mánaðar. Gjalddagi er annar virkur dagur eftir lok uppgjörstímabils. Ríkistollstjóri getur, til að tryggja skil áfengisgjalds í ríkissjóð, sett tiltekið hámark á fjárhæð áfengisgjalds sem heimilt sé að lána einstökum áfengisinnflytjendum á uppgjörstímabili og gert að skilyrði að sett verði trygging fyrir lánuðu áfengisgjaldi umfram þá fjárhæð. Ekki skal veita greiðslufrest á áfengisgjaldi vegna innflutnings annarra aðila en skráðra áfengisinnflytjenda. Þó skal heimilt að skuldfæra áfengisgjald í samræmi við ákvæði 1. tölul. ef um er að ræða mjög lítið magn áfengis, samkvæmt nánari skilgreiningu ríkistollstjóra, sem flutt er inn af aðilum sem njóta greiðslufrests skv. 2. gr. og ekki eru skráðir áfengisinnflytjendur.

Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi á næsta virkan dag á eftir.

5. gr.

Greiðsla aðflutningsgjalda.

Innflytjendur, sem veittur hefur verið greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum, skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða tollstjóra, þar sem þeir eiga lögheimili, aðflutningsgjöld sem þeim hafa verið lánuð.

Greiða má samkvæmt gíróseðli sem sendur er innflytjanda í lok uppgjörstímabils.

Greiðsla aðflutningsgjalda telst fullnægjandi ef:

1. Greitt er í banka, sparisjóði eða pósthúsi í síðasta lagi á gjalddaga.

2. Greitt er hjá tollstjóra í síðasta lagi á gjalddaga.

3. Póstlögð greiðsla hefur borist tollstjóra í síðasta lagi á gjalddaga.

6. gr.

Vanskil.

Verði vanskil á greiðslu aðflutningsgjalda skal tollstjóri synja innflytjanda um frekari greiðslufrest meðan vanskil vara. Jafnframt er tollstjóra heimilt, verði vanskil á greiðslu annarra ríkissjóðsgjalda en aðflutningsgjalda, að synja innflytjanda um frekari greiðslufrest aðflutningsgjalda á meðan vanskil vara.

Hafi trygging verið sett vegna greiðslufrests á aðflutningsgjöldum skal tollstjóri 15 dögum eftir gjalddaga gera kröfu á hendur sjálfskuldarábyrgðaraðila um greiðslu aðflutningsgjalda auk dráttarvaxta og annars kostnaðar sem af vanefndum hefur leitt og nægir einföld krafa tollstjóra til ábyrgðaraðila. Greiðsla skal hafa borist tollstjóra innan sjö daga frá dagsetningu kröfubréfs. Hafi greiðsla eigi borist tollstjóra innan þess tíma skal tollafgreiðsla til viðkomandi innflytjanda þegar stöðvuð og ekki hefjast að nýju fyrr en fullnaðarskil hafa verið gerð.

Ef um er að ræða ítrekuð eða stórfelld vanskil á greiðslu aðflutningsgjalda getur tollstjóri án fyrirvara stöðvað tollafgreiðslu á öðrum vörum til innflytjanda, enda telji hann hagsmuni ríkissjóðs ekki verða tryggða með öðrum hætti.

Tollstjóri getur svipt innflytjanda heimild til greiðslufrests vegna ítrekaðra vanskila á greiðslu aðflutningsgjalda eða gert kröfu um að hann setji ríkissjóði fullnægjandi tryggingu samkvæmt 3. gr. reglugerðar þessarar.

Greiðslufrestur fellur niður þegar ákvæði 3. mgr. 104. gr. tollalaga nr. 55/1987 eiga við.

Eigi innflytjandi rétt á endurgreiðslu aðflutningsgjalda en er á sama tíma í vanskilum skal innheimtumaður skuldajafna endurgreiðslunni á móti kröfum um vangreidd aðflutningsgjöld sem veittur hefur verið greiðslufrestur á samkvæmt reglugerð þessari.

Dráttarvextir skulu reiknaðir á vangreidd aðflutningsgjöld frá og með gjalddaga og innheimtir í ríkissjóð. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta skulu gilda ákvæði vaxtalaga nr. 25/1987.

Um greiðslu álags vegna vangreidds áfengisgjalds fer eftir ákvæðum laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi, með síðari breytingum. Um greiðslu álags vegna vangreidds vörugjalds fer eftir ákvæðum laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem er sett með stoð í 109. og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, 37. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, 1. mgr. 5. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi, með síðari breytingum og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 640/1989, um greiðslufrest á virðisaukaskatti og öðrum aðflutningsgjöldum í tolli, með síðari breytingum.

Fjármálaráðuneytinu, 3. júní 1999.

Geir H. Haarde.

Árni Kolbeinsson.

Prenta reglugerð

Þetta vefsvæði byggir á Eplica