Reglugerð þessi tekur til skilgreininga og meðferðar á kröfum Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu, niðurfellinga og skilyrða fyrir afskriftum slíkra krafna.
Reglugerð þessi tekur eingöngu til skulda einstaklinga gagnvart Íbúðalánasjóði.
Kröfur Íbúðalánasjóðs teljast hafa glatað veðtryggingu annars vegar þegar sjóðurinn kaupir fasteign við nauðungarsölu og kröfur sjóðsins eru hærri en matsverð hennar við uppboð, sbr. 57. gr. laga nr. 90/1991, og hins vegar þegar aðrir kaupa fasteign við nauðungarsölu og kröfur sjóðsins sem hvíla á fasteign fást ekki að fullu greiddar af söluverði hennar.
Kröfur Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu bera hvorki vexti né verðtryggingu.
Íbúðalánasjóður skal tilkynna skuldara bréflega um niðurstöðu uppgjörs á nauðungarsölunni um leið og frumvarp um úthlutun á söluverði eða verðmat íbúðar liggur fyrir.
Í tilkynningu skal m.a. gera grein fyrir möguleika á greiðslu kröfunnar skv. 5. gr. og útilokun frá fyrirgreiðslu sjóðsins skv. 4. gr.
Íbúðalánasjóður aðhefst ekki frekar við innheimtu kröfu nema sjóðurinn telji að krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota á lánareglum. Við slík brot fellur niður heimild sjóðsins til niðurfellinga skv. 5. gr. og afskrifta skv. 6. gr.
Skuldarar fá ekki fyrirgreiðslu að nýju hjá Íbúðalánasjóði, hvorki ný lán né heimild til yfirtöku eldri lána, fyrr en kröfur sjóðsins á hendur þeim hafa verið greiddar skv. 5. gr. eða þær afskrifaðar skv. 6. gr.
Skuldari getur hvenær sem er greitt inn á kröfuna og er Íbúðalánasjóði heimilt að koma til móts við skuldara við hverja greiðslu með því að fella niður af kröfunni til viðbótar sömu fjárhæð og greidd var. Með því er krafa að fullu greidd þegar skuldari hefur greitt helming hennar.
Að liðnum 5 árum frá nauðungarsölu er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa kröfur sem glatað hafa veðtryggingu enda sýnt að skuldari hafi ekki haft og hafi ekki fjárhagsgetu til að greiða kröfuna, sbr. 5. gr., vegna ófyrirséðra eða óviðráðanlegra atvika.
Reglugerð þessi sem sett er með heimild í 47. og 50. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð, nr. 795/2001, um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu.