Framkvæmdasjóður aldraðra skal stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt.
Samstarfsnefnd um málefni aldraðra annast stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra, sbr. 3. tölul. 5. gr. og 1. mgr. 11. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingum. Þegar nefndin fjallar um málefni Framkvæmdasjóðs aldraðra skal fulltrúi tilnefndur af fjárlaganefnd Alþingis taka sæti í henni. Kostnaður við rekstur og stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra skal greiddur úr sjóðnum samkvæmt ákvörðun ráðherra.
Samstarfsnefnd um málefni aldraðra skal árlega gera tillögur til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Skal umsóknum raðað í forgangsröð í samræmi við þörf á hverjum stað. Skal þess gætt að ekki séu gerðar tillögur um úthlutun vegna stofnana annarra en þeirra sem fengið hafa framkvæmda- og rekstrarleyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 7. gr.
Við gerð tillagna um úthlutun til nýrra verkefna skal samstarfsnefnd um málefni aldraðra styðjast við eftirfarandi:
a. | Framlag til þjónustumiðstöðva aldraðra skv. a-lið 5. gr. og dagvistar skv. b-lið 5. gr. má nema allt að 20% af heildarkostnaði. Framlagið má þó ekki verða hærra en 10.500 kr. á hvern m2 miðað við byggingarvísitölu 100. |
b. | Framlag til dvalarheimila og sambýla skv. c-lið 5. gr. má nema allt að 20% af heildarkostnaði með búnaði. Framlagið má þó ekki verða hærra en 8.750 kr. á hvern m2 miðað við byggingarvísitölu 100. |
c. | Framlag til hjúkrunarheimila eða hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum í eigu sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila skv. d-lið 5. gr. má nema allt að 40% af heildarkostnaði með búnaði. Framlagið má þó ekki verða hærra en 28.100 kr. á hvern m2 miðað við byggingarvísitölu 100. |
d. | Framlag vegna breytinga og endurbóta skv. e-lið 5. gr. skal miðast við framlagða kostnaðaráætlun og mat á nauðsyn. |
e. | Framlög til annarra verkefna skv. h-lið 5. gr. skulu taka mið af 1. gr. |
Umsóknir um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra skulu vera á sérstökum eyðublöðum sem útbúin eru af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Eyðublöðunum skulu jafnframt fylgja skilmálablöð ráðuneytisins.
Framkvæmdasjóður aldraðra skal vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
Tryggingastofnun ríkisins skal ársfjórðungslega og oftar ef þörf krefur gefa samstarfsnefnd um málefni aldraðra yfirlit um stöðu sjóðsins.
Reikningar Framkvæmdasjóðs aldraðra fyrir nýliðið ár skulu fullgerðir um leið og aðrir reikningar Tryggingastofnunar ríkisins. Skulu þeir endurskoðaðir á sama hátt og reikningar ríkisstofnana.
Tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra eru:
a. | Tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 10. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Fjárhæð gjaldsins kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. |
b. | Frjáls framlög og aðrar tekjur er til kunna að falla. |
c. | Vaxtatekjur. |
Í miðmánuði hvers ársfjórðungs skal fjármálaráðuneytið skila Framkvæmdasjóði aldraðra fjórðungi tekna sjóðsins á því ári.
Fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra skal varið til:
a. | Bygginga þjónustumiðstöðva aldraðra sem eru starfræktar af sveitarfélögum til að tryggja eldri borgurum félagsskap, næringu, hreyfingu, tómstundaiðju, skemmtun og heilsufarslegt eftirlit. Þjónustumiðstöðvar geta starfað sjálfstætt eða í tengslum við aðra þjónustu sem aldraðir njóta. |
b. | Bygginga dagvista fyrir aldraða sem er stuðningsúrræði við þá sem að staðaldri þurfa eftirlit og umsjá til að geta búið áfram heima. Í dagvist aldraðra skal veitt hjúkrunarþjónusta og vera aðstaða til þjálfunar og læknisþjónustu. Boðið skal upp á flutningsþjónustu að og frá heimili einstaklingsins, mat á heilsufari, þjálfun, tómstundaiðju, félagslegan stuðning, fræðslu, ráðgjöf og aðstoð við athafnir daglegs lífs. |
c. | Bygginga dvalarheimila og sambýla sem eru sérhönnuð fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Á stofnunum þessum skal vera varsla allan sólarhringinn og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félags- og tómstundastarfi. Aðstaða skal vera fyrir hjúkrun, læknishjálp og endurhæfingu. Þjónusta skal byggð á einstaklingsbundnu mati á þörfum hins aldraða og skal byggjast á hjálp til sjálfshjálpar. |
d. | Bygginga hjúkrunarheimila eða hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum ætluð öldruðum einstaklingum sem eru of lasburða til að dveljast á dvalarheimilum eða sambýlum. Þar skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta og vera endurhæfing. Sérstök aðstaða skal vera fyrir aldraða með heilabilunareinkenni. Þjónusta skal byggð á einstaklingsbundnu mati á heilsufarslegum og félagslegum þörfum hins aldraða. Möguleiki skal vera á að einstaklingar geti komið þar til skammtímavistunar, sé þess þörf. Við hönnun skal þess sérstaklega gætt að stofnunin sé heimilisleg og að sem flestir íbúar hafi eigið herbergi. |
e. | Að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem tilgreint er í a-d-liðum. |
f. | Viðhalds húsnæðis sem tilgreint er í b-d-liðum. Framlög samkvæmt þessum lið greiðast samkvæmt reglugerð heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um daggjöld stofnana sem ekki eru á föstum fjárlögum og þarf ekki að sækja um þau á sérstökum eyðublöðum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. |
g. | Reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða sem tilgreind er í c- og d-liðum í sérstökum tilvikum. |
h. | Annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu. |
Framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra telst ríkisframlag.
Framkvæmdasjóði aldraðra er heimilt að greiða þann hluta húsaleigu sem telst stofnkostnaður vegna leigu á hjúkrunarheimili fyrir aldraða sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005 á kostnað annarra aðila en ríkisins að undangengnu útboði. Skilyrði fyrir greiðslu húsaleigu er að ekki hafi verið veittur styrkur úr Framkvæmdasjóði aldraðra skv. 5. gr. eða annar styrkur frá ríkinu til að byggja hjúkrunarheimilið. Húsaleiga sem greidd er með þessum hætti telst ígildi stofnkostnaðar. Hjúkrunarheimili skal tekið á leigu að undangengnu útboði.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er heimilt að gera undanþágu frá útboði þegar sérstaklega stendur á og talið er að útboð muni ekki leiða til lægri húsaleigukostnaðar fyrir ríki og sveitarfélög.
Framlög skv. 5. gr. og húsaleiga skv. 6. gr. eru ekki veitt úr Framkvæmdasjóði aldraðra nema heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hafi veitt framkvæmda- og rekstrarleyfi skv. 16. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
Áður en framkvæmdir hefjast við dagvist fyrir aldraða skv. b-lið 5. gr. eða stofnun fyrir aldraða skv. c- og d-lið 5. gr. skal afla framkvæmda- og rekstrarleyfis skv. 1. mgr. Skulu umsóknir um framkvæmda- og rekstrarleyfi vera á sérstökum eyðublöðum sem útbúin eru af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Eyðublöðunum skulu fylgja sérstök skilmálablöð. Beiðni um framkvæmda- og rekstrarleyfi skal fylgja umsögn og þarfagreining þjónustuhóps aldraðra á því starfssvæði þar sem stofnunin mun verða. Ennfremur skulu fylgja upplýsingar um verksvið stofnunar og staðsetningu, svo og uppdrættir af byggingum, lóð og umhverfi og afstöðu til nágrennis ásamt lýsingu á húsakynnum. Þá skal fylgja greinargerð um fjármögnun, eigendur og fjárhag þeirra og skýrsla um starfsáætlun, stjórn, starfsfólk, rekstrarfyrirkomulag og hve mörgum vistmönnum stofnuninni er ætlað að sinna.
Beiðni um framkvæmda- og rekstrarleyfi vegna meiri háttar breytinga og endurbóta á húsakynnum og starfsemi stofnunar fyrir aldraða skv. e-lið 5. gr. skulu fylgja upplýsingar um staðsetningu, uppdrættir af byggingum, lóð og umhverfi og um afstöðu til nágrennis ásamt lýsingu á húsakynnum. Ennfremur skulu fylgja upplýsingar um það hvort breytingarnar hafi áhrif á umfang starfseminnar og hvort þær leiði til fjölgunar eða fækkunar vistmanna. Þá skulu fylgja upplýsingar um fjármögnun breytinganna.
Ráðherra veitir framkvæmda- og rekstrarleyfi ef stofnunin fullnægir heilbrigðiskröfum og ákvæðum laga um málefni aldraðra og ætla má að hún geti leyst verkefni sín á viðunandi hátt, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu.
Um framkvæmdir skv. 5. gr. fer samkvæmt lögum nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda eftir því sem við á.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra getur ákveðið, að höfðu samráði við samstarfsnefnd um málefni aldraðra, að krefja þá sem framlög hafa fengið úr Framkvæmdasjóði aldraðra um endurgreiðslu framlagsins ef húsnæði það sem styrkur var veittur til er notað í þágu annarra en aldraðra innan 20 ára frá því að húsnæðið var tekið í notkun.
Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 12. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2005. Frá sama tíma fellur brott reglugerð nr. 299/1990 um Framkvæmdasjóð aldraðra, með síðari breytingum.