1. gr.
Við 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar bætist: Að fenginni ákvörðun ráðherra skv. 3. mgr. 23. gr. laga um húsnæðismál getur sjóðurinn boðið þeim lántakendum, sem undirrita yfirlýsingu um að þeir afsali sér heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga, sbr. 1. mgr. 15. gr., lægra vaxtaálag sem nemur allt að þeim hluta álagsins sem er ætlað að mæta vaxtaáhættu sjóðsins.
2. gr.
Við 15. gr. reglugerðarinnar bætast tvær nýjar málsgreinar svohljóðandi:
Íbúðalánasjóði er heimilt að bjóða þeim, sem undirrita yfirlýsingu um að þeir afsali sér heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga, lán með lægra vaxtaálagi sem nemur þeim hluta álagsins sem er ætlað að mæta vaxtaáhættu sjóðsins.
Óski lántaki sem tekið hefur lán með lægra vaxtaálagi en ella býðst, sbr. 3. mgr., eftir því að greiða af láni aukaafborganir eða greiða skuldabréfið upp að fullu fyrir lok lánstímans skal hann greiða sérstaka þóknun til Íbúðalánasjóðs samkvæmt gjaldskrá Íbúðalánasjóðs.
3. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 23. gr. og 29. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Félagsmálaráðuneytinu, 21. nóvember 2005.
Árni Magnússon.
Guðjón Bragason.