Fara beint í efnið

Prentað þann 18. apríl 2024

Stofnreglugerð

798/2002

Reglugerð um kakó- og súkkulaðivörur.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um kakó- og súkkulaðivörur sem skilgreindar eru í A hluta, viðauka 1. Reglugerðin gildir ekki um vörur sem ætlaðar eru til útflutnings til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ekki er heimilt að markaðssetja þær vörur sem skilgreindar eru í A hluta viðauka 1, nema í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

2. gr. Jurtafita.

Heimilt er að bæta jurtafitu, sbr. viðauka 2, annarri en kakósmjöri, í þær súkkulaðivörur sem eru skilgreindar í 3., 4., 5., 6., 8. og 9. tölul. í A hluta viðauka 1.

Jurtafita skal ekki fara yfir 5% af fullunninni vöru eftir að heildarþungi annars neysluhæfs efnis, sem er notað í samræmi við B hluta viðauka 1, hefur verið dreginn frá, án þess að með því sé minnkað lágmarks innihald kakósmjörs eða heildarmagn kakóþurrefnis.

Heimilt er að markaðssetja súkkulaðivörur sem skv. 1. mgr. innihalda jurtafitu aðra en kakósmjör að því tilskildu að til viðbótar merkingu þeirra, sbr. ákvæði 3. gr., sé áberandi og auðlæsileg yfirlýsing: "Inniheldur jurtafitu auk kakósmjörs". Yfirlýsing þessi skal birtast á sama stað og upptalning innihaldsefna eru tilgreind, en greinilega aðskilin frá þeirri upptalningu, með letri sem er a.m.k. jafnstórt og feitt og nálægt vöruheitinu. Þrátt fyrir þessa kröfu má vöruheitið einnig koma fram annars staðar á umbúðum.

3. gr. Merkingar.

Auk þess að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla með síðari breytingum skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram á umbúðum um kakó- og súkkulaðivörur:

  1. Heiti vörunnar í samræmi við skilgreiningar í A hluta viðauka 1;
  2. ef vörurnar sem skilgreindar eru í 3., 4., 5., 6., 7. og 10. tölul. í A hluta viðauka 1 eru seldar í blönduðu úrvali er heimilt að "Úrval af súkkulaði" eða "Úrval af fylltu súkkulaði" eða áþekk heiti komi í stað vöruheitanna. Í slíkum tilvikum er heimilt að birta eina innihaldslýsingu fyrir allar vörurnar í hinu blandaða úrvali;
  3. í merkingum kakó- og súkkulaðivara sem eru skilgreindar í 2.c, 2.d, 3., 4., 5., 8. og 9. tölul. í A hluta viðauka 1 skal koma fram hvert heildarmagn kakóþurrefnis er með því að fella inn eftirfarandi: "Kakóþurrefni:........% að lágmarki";
  4. í merkingum kakó- og súkkulaðivara sem eru skilgreindar í 2.b og 2.d tölul. í A hluta viðauka 1 skal koma fram í merkingu hvert magn kakósmjörs er;
  5. við heitin "Suðusúkkulaði", "Mjólkursúkkulaði" og "Hjúpsúkkulaði" er heimilt að bæta tilvísun til ákveðinna gæða vörunnar ef:

    • Í suðusúkkulaðinu eru a.m.k. 43% af kakóþurrefnum, þar af a.m.k. 26% kakósmjör;
    • í mjólkursúkkulaðinu eru a.m.k. 30% kakóþurrefni og a.m.k. 18% mjólkurþurrefni fengin með þykkingu eða þurrkun á nýmjólk, léttmjólk, undanrennu, rjóma, smjöri eða mjólkurfitu, þar af a.m.k. 4,5% mjólkurfita;
    • í hjúpsúkkulaði er a.m.k. 16% fitusnautt kakóþurrefni.

4. gr. Eftirlit.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hver á sínum stað, eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar reglugerðar.

5. gr. Viðurlög.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli samanber og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli samanber og lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í II. viðauka XII. kafla (tilskipun 2000/36/EBE um kakó- og súkkulaðivörur). Einnig með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af I. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð nr. 218/1996 um kakó- og súkkulaðivörur.

Ákvæði til bráðabirgða.

Fyrir kakó- og súkkulaðivörur sem eru hér á markaði við gildistöku þessarar reglugerðar og ekki eru í samræmi við ákvæði hennar er veittur frestur til 1. janúar 2004 til að koma á breytingum til að uppfylla kröfur reglugerðar þessarar. Hafi breytingar ekki verið gerðar að þeim tíma liðnum er sala vörunnar óheimil.

Umhverfisráðuneytinu 21. október 2002.

Siv Friðleifsdóttir.

Ingimar Sigurðsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.