Markmið þessarar reglugerðar er að tryggja velferð gæludýra og dýra sem haldin eru í atvinnuskyni.
Reglugerð þessi gildir um meðferð, aðbúnað og umhirðu gæludýra. Við flutning gæludýra á milli landa skal fara að reglum Evrópusamnings um vernd dýra í millilandaflutningum, sbr. C-deild Stjórnartíðinda nr. 8/1969.
Reglugerð þessi gildir jafnframt um hvers konar ræktun, verslun, þjálfun, tamningar, geymslu og leigu dýra í atvinnuskyni sem ekki fellur undir búfjárhald. Einnig gildir reglugerðin um dýragarða og annað sýningarhald með dýr. Reglugerðin nær ekki til starfsemi sem fellur undir lög nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.
Í reglugerð þessari er merking orða eftirfarandi:
Dýragæsla: Starfsemi þar sem dýra er gætt að staðaldri í atvinnuskyni.
Dýrasýning: Sýning dýra, annarra en skrautfiska, á almannafæri, svo sem í dýra- og skemmtigörðum, á ræktunar- og dýrasýningum og í verslunum og fyrirtækjum. Jafnframt þegar dýr er notað við gerð auglýsinga, í fjölmiðlum, í kvikmyndum og á leiksýningum.
Gæludýr: Hundar, kettir, skrautfiskar, nagdýr, kanínur og búrfuglar sem haldin eru til afþreyingar, félagsskapar, tómstundaiðju sem og hundar og kettir sem haldnir eru til gagns svo sem hundar í þjónustu lögreglu, tollgæslu og björgunarsveita, varðhundar, smalahundar, sleðahundar, leitarhundar, blindrahundar, veiðihundar og útihúsakettir.
Gæludýrabú: Starfsemi, svo sem hunda- og kattabú, þar sem sex eða fleiri gæludýr eru haldin til undaneldis í atvinnuskyni. Þetta á jafnt við um kven- og karldýr sem rekstraraðili á eða hefur í umsjá sinni.
Gæludýraverslun: Öll verslun með gæludýr að staðaldri í atvinnuskyni.
Eigendur og umráðamenn gæludýra skulu tryggja þeim viðunandi aðbúnað og umhverfi til að nærast, til íveru og hvíldar, til hreyfingar og afþreyingar. Þeir skulu jafnframt afla sér þekkingar á eðli og eiginleikum dýranna til að geta uppfyllt þarfir þeirra.
Foreldrum eða öðrum forráðamönnum barna er skylt að sjá til þess að þau hlýðnist fyrirmælum þessarar reglugerðar.
Eiganda og umráðamanni gæludýrs er skylt að koma í veg fyrir að það sleppi úr haldi. Gerist það skal þegar gera ráðstafanir til að handsama dýrið. Eigandi eða umráðamaður hunds í þéttbýli skal auðkenna hann varanlega með húðflúri eða örmerki. Eigandi eða umráðamaður kattar í þéttbýli skal auðkenna hann varanlega með húðflúri í eyra eða örmerki.
Gæludýrum skal sýnd fyllsta nærgætni og umönnun á sérhverju aldursskeiði. Eigendur og umráðamenn skulu taka tillit til ólíkra þarfa hinna ýmsu tegunda að því er varðar fóðrun, umhyggju, hreyfingu, félagsskap og hitastig. Byggingar, girðingar, búr og aðrar vistarverur skulu vera þannig að vel fari um dýrin allt árið um kring.
Eigendum eða umsjónarmönnum gæludýra ber skylda til að halda þeim hreinum. Feldi, hami og klóm skal jafnframt halda í heilbrigðu og eðlilegu ástandi.
Tryggja skal sérhverju gæludýri daglegan og greiðan aðgang að næringarríku, heilnæmu og óskemmdu fóðri og fersku vatni. Fóðurtegund, magn, fjölbreytni og bætiefni skal miða við tegund, aldur, ástand og þörf hvers dýrs. Viðhafa skal hreinlæti við fóðrun og í fóðuraðstöðu gæludýrs. Gæta skal þess að fóður- og drykkjarílát séu ávallt hrein og vel aðgengileg dýrum á öllum aldri og þannig staðsett að hvorki fóður né vatn geti mengast af saur eða þvagi. Sérstaka aðgát skal hafa við fóðrun kvendýra með fangi, mjólkandi kvendýra, ungviðis í örum vexti og aldraðra gæludýra. Sama gildir um búrfugla fyrir og eftir varp.
Eigandi og umráðamaður gæludýrs skal fylgjast með heilsufari þess og leita til dýralæknis sé það veikt eða slasað.
Óheimilt er að nota hvers konar tæki og tól sem kunna að valda gæludýri sársauka eða hræðslu, þar með talin rafmagns- og gaddahálsbönd.
Verði breytingar á aðstæðum gæludýrs, það t.d. fært inn í nýjan hóp, skal fylgjast vel með líðan þess og gera viðeigandi ráðstafanir virðist það ekki aðlagast hópnum.
Skylt er að annast spendýr með fangi, búrfugla komna að varpi og skrautfiska komna að hrygningu af nærgætni, búa þeim stað þar sem þau njóta næðis og forða þeim frá álagi og streitu frá öðrum gæludýrum eða umhverfi. Þegar að goti eða varpi kemur skal fylgjast náið með gæludýrinu til að geta veitt því liðsinni sé þess þörf eða kalla til dýralækni.
Þeim sem selur eða gefur gæludýr ber skylda til að veita þeim sem tekur við dýrinu upplýsingar um heilsufar og aldur dýrsins og eiginleika tegundarinnar. Veita skal viðtakanda leiðbeiningar um rétta meðferð, umhirðu og aðbúnað dýrsins.
Óheimilt er að selja einstaklingi yngri en 18 ára gæludýr nema með skriflegu samþykki forráðamanna.
Leyfi Umhverfisstofnunar þarf til að hafa lifandi gæludýr sem happdrættisvinning.
Þeir sem flytja gæludýr skulu tryggja að ferðamáti og staðsetning dýrsins í farartæki misbjóði hvorki heilsu þess né þoli meðan á ferð stendur. Vanda skal umbúnað dýrsins sem best til að forðast hnjask og meiðsli. Hitastig meðan á flutningi stendur skal miðast við eðliseiginleika dýrsins svo sem hita- og kuldaþol. Hafa skal reglulegt eftirlit með líðan dýrsins meðan á ferð stendur til að tryggja velferð þess.
Sé gæludýr flutt í ferðabúri skal það vera með heilum botni og það rúmt að gæludýrið geti staðið í því, snúið sér við, legið og hvílst. Á búrinu skulu vera göt eða rimlar sem tryggja gott loft í því og útsýni.
Dvöl hunda og katta í farartæki skal ekki vera lengri en sex klukkutímar í senn án hvíldar en sé ferðatíminn lengri skal veita þeim aðgang að fersku vatni og fóðri og tækifæri til hreyfingar og til að sinna nauðsynlegum þörfum sínum.
Óheimilt er að flytja gæludýr í farangursrými bifreiðar nema hægt sé að fylgjast með líðan dýrsins úr farþegarými meðan á ferð stendur.
Ekki skal flytja sjúkt gæludýr, slasað eða komið að fæðingu, nema til og frá dýralækni eða sérstaklega standi á.
Aðeins dýralæknar mega aflífa gæludýr, nema í neyðartilfellum þegar ekki næst í dýralækni og ætla má að sjúkdómur dýrs eða meiðsl valdi því óbærilegum kvölum eða séu banvæn. Öðrum er þó heimilt að aflífa skrautfiska með koltvísýringi eða öðru sambærilegu efni.
Eigandi eða umráðamaður hunds skal stuðla að réttri meðferð í samræmi við eðli hans, eiginleika og aldur, sinna félagslegri þörf hans við manninn og ofgera honum ekki á neinn hátt. Hundur skal hafa tækifæri til að komast út daglega til að geta sinnt eðlilegum þörfum sínum og fá þá hreyfingu sem er nauðsynleg tegundinni.
Aðbúnaður og aðstaða hunds skal vera þannig að hæfi stærð hans og tegund með tilliti til hvíldar og hreyfingar. Daglegar vistarverur skulu vera hreinar, hæfilega hlýjar, bjartar og vel loftræstar. Tryggja skal hundi aðgengilegt svefn- og hvíldarpláss sem er laust við raka, dragsúg og hávaða. Undirlag skal vera hreint og mjúkt.
Ekki skal skilja hund eftir einan og eftirlitslausan lengur en sex klst. í senn nema í undantekningartilvikum.
Aðeins er heimilt að tjóðra hunda ef nauðsyn ber til og þá einungis stuttan tíma í senn. Reynist tjóðrun nauðsynleg skal þannig gengið frá bandinu að hundinum sé engin hætta búin af því.
Óheimilt er að loka hund í litlu, þröngu og gluggalausu rými. Sé hundur hafður í búri eða stíu skulu þau uppfylla lágmarkskröfur sem fram koma í viðauka með reglugerð þessari.
Aðeins skal nota heilbrigða hunda til undaneldis. Ekki skal ala undan hundum sem vitað er að geti ekki fjölgað sér á eðlilegan hátt eða eru haldnir arfgengum sjúkdómum sem geta haft áhrif á heilbrigði afkvæmanna eða skert eðlilegar lífslíkur þeirra.
Ekki skal nota tík til undaneldis fyrr en hún hefur náð til þess líkamlegum þroska, að jafnaði við annað lóðatímabil. Tryggja skal að tík fái nægjanlega hvíld milli gota, að jafnaði 1-2 lóðatímabil.
Útbúa skal hvolpafullri tík viðhlítandi hvíldarpláss í rólegu umhverfi sem hún getur lagað sig að tímanlega fyrir got. Sé tík með hvolpa höfð í búri eða stíu skulu þau uppfylla lágmarkskröfur sem fram koma í viðauka með reglugerð þessari.
Ekki skal nema í undantekningartilfellum aðskilja hvolp frá tík fyrr en hann hefur náð 8 vikna aldri. Hvolpur yngri en 4 mánaða skal að jafnaði ekki skilinn eftir einn og án eftirlits lengur en 3 klst. í senn.
Eigandi eða umráðamaður hvolps skal sinna honum daglega til að venja hann við samskipti við manninn. Hefja skal félags- og umhverfismótun hvolpsins strax á fyrstu viku og aðlaga hann að umhverfinu.
Aðbúnaður og aðstaða kattar skal vera þannig að hæfi stærð hans og tegund með tilliti til hvíldar og hreyfingar. Daglegar vistarverur kattar skulu vera hreinar, hæfilega hlýjar, bjartar og vel loftræstar. Tryggja skal ketti aðgengilegt svefn- og hvíldarpláss sem er laust við raka, dragsúg og hávaða. Undirlag skal vera hreint og mjúkt.
Ketti sem ávallt er haldið innandyra skal tryggja aðstöðu og umhverfi sem uppfyllir þörf hans fyrir tilbreytingu, afþreyingu, eðlilega hreyfingu og góða yfirsýn yfir yfirráðasvæðið.
Ekki skal skilja kött eftir einan og eftirlitslausan lengur en nauðsynlegt er og að hámarki í einn sólarhring.
Ekki skal tjóðra ketti nema í undantekningartilvikum og þá einungis í skamma stund í senn og undir stöðugu eftirliti.
Óheimilt er að halda ketti í lokuðu, gluggalausu rými. Sé köttur hafður í búri skal það uppfylla lágmarkskröfur sem fram koma í viðauka með reglugerð þessari.
Aðeins skal nota heilbrigða ketti til undaneldis. Ekki skal ala undan köttum sem vitað er að geti ekki fjölgað sér á eðlilegan hátt eða eru haldnir arfgengum sjúkdómum sem geta haft áhrif á heilbrigði afkvæmanna eða skert eðlilegar lífslíkur þeirra.
Ekki skal nema í undantekningartilvikum aðskilja kettling frá læðu fyrr en hann hefur náð 8 vikna aldri. Kettlingur yngri en 4 mánaða skal að jafnaði ekki skilinn eftir einn og án eftirlits lengur en 6 klst. í senn.
Eigandi og umráðamaður kettlings skal sinna honum daglega til að venja hann við samskipti við manninn.
Kanínum og nagdýrum skal gefinn kostur á að njóta afþreyingar og félagsskapar eftir því sem við á. Næturvirkum dýrum skal tryggður nægilegur friður til hvíldar yfir daginn.
Búr eða aðhald skal þannig úr garði gert að dýrin geti séð og heyrt það sem fram fer utan þess, fái útrás fyrir eðlilega hreyfiþörf, hafi möguleika á afdrepi gegn áreiti, óvinveittum dýrum og of mikilli birtu og hafi jafnframt aðgang að hentugu bæli. Tryggja skal að dýrin geti ekki nagað sig út úr búrinu eða aðhaldinu né gangi á neti eingöngu. Hluti búrsins skal búinn föstum botni. Stærð og gerð búra skal uppfylla þær lágmarkskröfur sem fram koma í viðauka við reglugerð þessa.
Búrum skal halda hreinum. Undirburður skal ávallt vera hreinn og úr viðeigandi efni. Innibúr skulu standa í minnst 50 cm hæð frá gólfi. Séu kanínur hafðar úti að staðaldri skal tryggja að aðstaða þeirra veiti skjól gegn veðri, vindum og sólarljósi, sé laus við dragsúg og vel einangruð frá jarðkulda. Nagdýr skal ekki vista utandyra.
Óheimilt er að skilja kanínur eða nagdýr eftir ein og eftirlitslaus lengur en tvo sólarhringa.
Aðeins skal nota heilbrigðar kanínur og nagdýr til undaneldis.
Tveimur vikum fyrir got eða þegar meðganga er hálfnuð skal færa kanínu í sér búr með hlýjum hreiðurgerðarkassa. Kanínuna skal hafa eina í búri með ungum sínum í 5 vikur eða á meðan ungarnir eru á spena. Ekki skal nema í undantekningartilvikum skilja kanínuunga yngri en 5 vikna frá móður, naggrísaunga, dverghamstraunga og músaunga yngri en 3 vikna og gullhamstraunga yngri en 25 daga. Líða skulu minnst tvær vikur frá því að kanínuungar eru aðskildir frá móður þar til hún er aftur sett í búr með karldýri.
Fuglabúr skulu uppfylla þær lágmarkskröfur sem fram koma í viðauka við reglugerð þessa.
Fuglabúr skulu þannig gerð, að þau henti tegundinni og að fuglarnir geti séð og heyrt það sem fram fer í umhverfi þeirra. Bil milli rimla og botn skulu vera þannig að fuglinn geti ekki slasað sig. Í fuglabúri skulu vera minnst tvö prik til að sitja á og í botni þeirra skal vera heppilegur undirburður. Í þeim skal jafnframt vera afdrep fyrir þá fugla sem er eiginlegt að draga sig í hlé eða þá sem sýna merki um veikindi eða streitu. Séu margir fuglar í sama búri, skal vera það rúmt um fuglana, að þeir geti allir setið samtímis á priki og unnt sé að fljúga á milli prika. Búr ætluð páfagaukum skulu vera þannig að þeir geti klifrað í þeim.
Staðsetning fuglabúra skal vera þannig að sem best fari um fuglinn.
Ekki skal tjóðra búrfugla nema í undantekningartilvikum og þá einungis við fóthring í skamma stund í senn.
Forðast skal að setja fleiri en eina tegund fugla í sama búr nema vitað sé að tegundirnar geti lifað í sambýli.
Óheimilt er að skilja búrfugla eftir án eftirlits lengur en 2 sólarhringa.
Aðeins skal nota heilbrigða fugla til undaneldis. Ekki skal ala undan fuglum sem eru haldnir arfgengum sjúkdómum sem geta haft áhrif á heilbrigði afkvæmanna eða skert lífslíkur þeirra.
Gæta skal þess að offóðra ekki skrautfiska.
Stærð og lögun fiskabúrs, vatnsmagn og lýsingu skal miða við tegund, stærð og fjölda þeirra fiska sem í því eru. Á fiskabúri skal vera lok eða glerhlíf sé þess þörf. Vatnsgæði, hitastig og dýpt skal aðlaga hverri tegund.
Skrautfiskar skulu eiga þess kost að leita skjóls eða fela sig henti það tegundinni. Hlutir og undirburður (botnefni) í fiskabúri skulu henta þeim tegundunum sem þar eru.
Vatni í fiskabúri skal skipta út reglulega til að gæði vatnsins haldist eða nota viðeigandi hreinsibúnað.
Leyfi Umhverfisstofnunar þarf til hvers konar ræktunar, verslunar, þjálfunar, tamningar, geymslu og leigu dýra í atvinnuskyni sem ekki fellur undir búfjárhald. Einnig þarf leyfi Umhverfisstofnunar til að setja á stofn dýragarða og halda dýrasýningar. Til að handsama villt dýr fyrir dýragarða eða önnur söfn lifandi dýra, þarf leyfi umhverfisráðherra að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, sbr. lög nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.
Í umsókn um leyfi skv. 20. gr. skal tilgreina nafn og heimilisfang umsækjanda og ábyrgðarmanns, menntun og starfsreynslu á þessu sviði ásamt nafni starfseminnar og heimilisfangi, auk kennitölu sé um fyrirtæki að ræða. Umsóknum skal skilað á þar til gerðum eyðublöðum frá Umhverfisstofnun.
Gera skal ítarlega grein fyrir fyrirhugaðri starfsemi og tilgreina þær dýrategundir sem ætlunin er að halda, sýna eða veita þjónustu og hámarksfjölda spendýra og fugla sem fyrirhugað er að verði í umsjá rekstraraðila í senn. Einnig skulu fylgja umsókninni greinargóðar upplýsingar um vistarverur, fóðrun, vörslu og meðferð dýranna, auk fjölda starfsmanna sem fyrirhugað er að sinni dýrunum. Greinargóðar lýsingar skulu fylgja um staðsetningu starfseminnar (teikningar eða myndir) og afstöðu- og yfirlitsteikningar sem sýna mannvirki svo sem hús, búr, stíur, girðingar og þess háttar eftir því sem við á. Ef sótt er um leyfi til að halda tímabundna dýrasýningu skal koma fram hversu lengi ætlunin er að sýningin standi.
Umsókn um tímabundna dýrasýningu skal fylgja umsögn viðkomandi ábyrgðardýralæknis sbr. 2. mgr. 22. gr. Umsókn um önnur leyfi skv. 20. gr. skal fylgja umsögn héraðsdýralæknis og eldvarnareftirlits auk samþykkis viðkomandi heilbrigðisnefndar ásamt upplýsingum um afstöðu nágranna hátti þannig til.
Áður en leyfi skv. 20. gr. er veitt skal tilgreina ábyrgðarmann sem stjórnar og ber ábyrgð á aðbúnaði og umhirðu dýranna, nema um sé að ræða tímabundna dýrasýningu, sbr. 2. mgr. Ábyrgðarmaður skal hafa haldgóða menntun, þekkingu eða reynslu í meðferð og hegðun dýra að mati Umhverfisstofnunar og reynslu af fóðrun, gæslu og umönnun dýra.
Áður en veitt er leyfi fyrir tímabundinni dýrasýningu skal umsækjandi tilgreina dýralækni sem ber ábyrgð á aðbúnaði og umhirðu dýranna meðan á sýningunni stendur.
Leyfi skal gefa út til tiltekins tíma, mest fjögurra ára í senn. Tilgreina skal rekstraraðila, ábyrgðarmann og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, skilyrði, gildistíma og endurskoðun leyfis, auk ákvæða um eftirlit, aðbúnað og hreinlæti eftir því sem við á hverju sinni. Einnig skal tilgreina þær tegundir og hámarksfjölda dýra sem leyfilegt er að halda, sýna eða veita þjónustu á vegum rekstraraðila í senn.
Heimilt er að binda leyfi skilyrðum til að tryggja góða meðferð dýranna, svo sem um aðbúnað, umhirðu, viðhlítandi vistarverur og eftirlit með starfseminni.
Ákvæði II.-VII. kafla reglugerðar þessarar gilda einnig um dýrahald í atvinnuskyni samkvæmt þessum kafla eftir því sem við á. Stærð og gerð vistarvera skulu uppfylla þær lágmarkskröfur sem fram koma í viðauka með reglugerð þessari. Gólf, veggir, loft, innréttingar og annar búnaður skulu vera úr efni, sem auðvelt er að þrífa, gólf mega þó ekki vera hál. Allur útbúnaður skal vera þannig gerður að engin hætta sé á að dýrin slasi sig á honum eða að hann valdi þeim heilsutjóni. Ekki má nota efni sem geta valdið dýrunum vanlíðan eða heilsutjóni.
Vistarverum dýranna skal haldið þurrum og hreinum. Loftræsting skal vera góð í vistarverum dýranna og koma skal í veg fyrir dragsúg.
Lofthita skal haldið sem næst kjörhita fyrir hvert dýr og gæta skal þess að dagleg hitasveifla sé sem minnst. Rakastig skal að jafnaði vera á bilinu 40-70%. Ekki má vera svo mikill hávaði í vistarverum dýranna að hann hafi skaðleg áhrif á heilsu dýranna, eða innan við 40 dB að jafnaði. Spendýr og fuglar skulu njóta dagsbirtu á meðan birtu gætir. Stöðug sterk lýsing er óheimil. Ekki má vera sterk lýsing að næturlagi.
Rekstraraðili skal hafa náið og reglulegt eftirlit með þeim dýrum sem eru í umsjá hans. Umhverfisstofnun getur gert kröfu um að vistarverur dýra á gæludýrabúum séu búnar sjálfvirkum viðvörunarbúnaði tengdum loftræstingu og hitastigi ef það er nauðsynlegt til að tryggja öryggi dýranna. Þurrfóður skal geyma á þurrum og köldum stað en nýmeti skal geyma í kæli við 4 - 8°C eða fryst við minnst -18°C. Fóðurgeymslur skulu vera hreinar og músa- og rottuheldar.
Eftirlitsaðili skal hafa aðgang að skrám og dagbókum sem halda skal skv. 2. mgr. 25. gr. og 2. mgr. 26. gr. Umhverfisstofnun skal gera sýnishorn af slíkum skrám og dagbókum.
Staðsetja skal ólíkar tegundir dýra í gæludýraverslun þannig að staðsetningin valdi þeim sem minnstri streitu og álagi. Tryggja skal að dýrin geti matast, hvílst og gert þarfir sínar. Rúmgóð séraðstaða, aðskilin frá verslunarrými, skal vera fyrir lasburða eða veik dýr eða dýr komin að goti og með ung afkvæmi. Sé dýr veikt eða leiki grunur á að það sé lasburða eða veikt skal ábyrgðarmaður með dýrahaldi verslunarinnar ráðfæra sig við dýralækni um meðferð eða aflífun.
Líta skal til dýranna minnst einu sinni á sólarhring þá daga sem verslunin er lokuð.
Óheimilt er að selja hunda eða ketti í gæludýraverslunum. Ennfremur er óheimilt að sýna eða selja lasburða eða veik dýr, dýr komin að burði eða með mjög ung afkvæmi. Ungar kanína eða nagdýra skulu við afhendingu hafa náð þeim lágmarksaldri er fram kemur í 3. málsl. 2. mgr. 16. gr.
Auðkenna skal sérhvern hund á hundabúi með örmerki.
Halda skal skrá um sérhvern hund á búinu þar sem fram koma upplýsingar um tegund, kyn, fæðingardag, lit og varanlegt auðkenni ásamt ítarlegum heilsufarsupplýsingum. Halda skal skrá yfir viðskipti með einstök dýr þar sem fram komi nafn og heimilisfang kaupanda. Jafnframt skal halda dagbók um sérhvern hund á búinu, um heilsufar hans, fóðrun og tímalengd útiveru, pörun, hvenær tík á búinu eignast afkvæmi, fjölda þeirra og annað er viðkemur velferð hundsins.
Úr hverju innibúri eða stíu skal vera beint og/eða óheft aðgengi í útigerði í að minnsta kosti 8 klst. á dag. Sér gerði skal vera með hverju búri eða stíu. Umhverfisstofnun getur þó heimilað annað fyrirkomulag sem stofnunin telur fullnægjandi til að tryggja útiveru hundanna. Útigerði skulu vera á skjólgóðum og björtum stað og í þeim skal vera pallur til að liggja á. Ekki má myndast svað við úrkomu og efsta lagið skal endurnýjað reglulega. Sé gerði steypt eða malbikað skal vera gott afrennsli svo ekki myndist pollar. Gerði skal þannig útbúið að dýrin geti ekki sloppið út. Ekki skal hafa hunda saman í búri eða stíu ef hætta er á að þeir valdi hvor öðrum skaða. Taka skal tillit til aldurs og tegundar.
Sérstök aðstaða þar sem gætir næðis skal vera fyrir veika eða lasburða hunda, hvolpafullar tíkur og nýgotnar. Lóðatíkur skal einnig halda sér. Hafa skal aðstöðu til að baða, hirða og snyrta hunda.
Skylt er að fylgjast reglulega og náið með sérhverri hvolpafullri tík sem komin er að goti. Nýgotin tík skal ekki vera eftirlitslaus fyrstu tvær vikurnar eftir got og skal hún njóta næðis ásamt hvolpunum þann tíma. Tíkin skal ávallt hafa aðgang að hvíldarstað sem er óaðgengilegur hvolpunum. Fylgjast skal reglulega með hvolpum yfir daginn og tryggja að þeir venjist umgengni við fólk og aðra hunda.
Hvolpar skulu hafa aðgang að rými þar sem þeir geta hvílst, gert þarfir sínar og leikið sér. Þeir skulu hafa aðgang að heppilegum leikföngum.
Hvolpa skal ekki selja fyrr en þeir hafa náð 8 vikna aldri.
Ekki skal nota tík til undaneldis í atvinnuskyni eftir að hún hefur náð 7 ára aldri nema að höfðu samráði við dýralækni.
Auðkenna skal sérhvern kött á kattabúi með varanlegu auðkenni.
Halda skal skrá um sérhvern kött á búinu þar sem fram koma upplýsingar um tegund, kyn, fæðingardag, lit og varanlegt auðkenni ásamt ítarlegum heilsufarsupplýsingum. Halda skal skrá yfir viðskipti með einstök dýr þar sem fram komi nafn og heimilisfang kaupanda. Jafnframt skal halda dagbók um sérhvern kött á búinu, um heilsufar hans, fóðrun, pörun, hvenær læður á búinu eignast afkvæmi, fjölda þeirra og annað er viðkemur velferð kattarins.
Búr skulu vera útbúin leguplássum í mismunandi hæðum svo og klóru og klifrustæði. Allir kettirnir skulu samtímis geta haft aðgang að leguplássi. Jafnframt skal tryggja greiðan aðgang að kassa með sandi sem skal staðsetja svo þeir geti gert þarfir sínar í næði. Kassanum skal halda vel hreinum. Ekki skal hafa í sama rými fleiri en 15 fullvaxta ketti eða 20 kettlinga. Ekki skal hafa ketti saman ef hætta er á að þeir valdi hvor öðrum skaða. Taka skal tillit til aldurs og tegundar.
Tryggja skal hverjum ketti daglega hreyfingu og afþreyingu utan búrsins.
Séraðstaða þar sem gætir næðis skal vera fyrir veika eða lasburða ketti og fyrir kettlingafullar og nýgotnar læður. Nýgotnar læður skulu jafnframt hafa möguleika á að liggja hjá kettlingunum á dimmum stað, t.d. í lokuðu bæli. Hafa skal aðstöðu til að baða, hirða og snyrta ketti.
Skylt er að fylgjast reglulega og náið með sérhverri kettlingafullri læðu sem komin er að goti. Nýgotin læða skal ekki vera eftirlitslaus fyrstu tvær vikurnar eftir got og skal hún njóta næðis ásamt kettlingunum þann tíma. Læðan skal hafa aðgang að hvíldarstað sem er óaðgengilegur kettlingunum. Fylgjast skal reglulega með kettlingum yngri en 8 vikna yfir daginn og tryggja að þeir venjist umgengni við fólk og aðra ketti.
Kettlingar skulu hafa aðgang að rými þar sem þeir geta leikið sér með heppilegum leikföngum sér til afþreyingar, hvílst og gert þarfir sínar án truflunar hverjir af öðrum.
Hundar í gæslu skulu hafa beint og óheft aðgengi að útigerði í að minnsta kosti 8 klst. á dag. Sér gerði skal vera með hverju búri eða stíu. Umhverfisstofnun getur þó heimilað annað fyrirkomulag sem stofnunin telur fullnægjandi til að tryggja útiveru hundanna. Útigerði skulu vera á skjólgóðum og björtum stað og í þeim skal vera pallur til að liggja á. Ekki má myndast svað við úrkomu og efsta lagið skal endurnýjað reglulega. Sé gerði steypt eða malbikað skal vera gott afrennsli svo ekki myndist pollar. Gerði skal þannig útbúið að dýrin geti ekki sloppið út.
Tryggja skal að dýr í gæslu valdi ekki hvert öðru skaða.
Sérstök aðstaða skal vera fyrir þau dýr er kunna að veikjast eða eru lasburða, sem og fyrir lóðatíkur og breimalæður. Jafnframt skal vera aðstaða til baða og feldhirðu þeirra dýra er þess þurfa.
Sé aðstaða fyrir óskiladýr á staðnum skal hún vera algerlega aðskilin frá vistarverum annarra dýra.
Hver sá sem heldur þjálfunarnámskeið eða rekur þjálfunarskóla fyrir dýr skal hafa til þess aðstöðu eða húsnæði er hentar starfseminni. Séu námskeið haldin utandyra skal tryggja dýrunum skjólgott og hlýtt athvarf í hvíldartíma og að þjálfun lokinni.
Óheimilt er að nota hvers konar tæki eða tól eða beita þau dýr sem þjálfa skal neinum þeim aðferðum eða þvingunum sem valda þeim sársauka eða hræðslu.
Óheimilt er að nota dýr í atriði er veldur því hræðslu, óþægindum eða sársauka né sýna athafnir með eða aðgerðir á dýrum séu þær lítilsvirðandi fyrir dýrið eða misbjóði almennu velsæmi.
Óheimilt er að sýna dýr komið nálægt fæðingu eða með afkvæmi yngri en 3ja vikna.
Ekki er heimilt að hafa dýr til sýnis í verslunargluggum, verslunarmiðstöðvum eða á öðrum sambærilegum stöðum ef það getur valdið ótta eða streitu hjá dýrunum.
Um þvingunarúrræði og viðurlög við brotum gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer samkvæmt 18.-21. gr. laga nr. 15/1994 um dýravernd.
Umhverfisstofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 5., 11. og 12. gr. laga nr. 15/1994 um dýravernd og að höfðu samráði við landbúnaðarráðherra. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um dýrahald í atvinnuskyni nr. 499/1997.
Starfsemi, sem við gildistöku reglugerðar þessarar hefur gilt leyfi til dýrahalds í atvinnuskyni en uppfyllir ekki kröfur reglugerðarinnar, er veittur frestur til 1. janúar 2006 til að uppfylla þær kröfur.
Þeir aðilar sem ekki falla undir VIII. kafla reglugerðar þessarar og halda gæludýr í búrum og útigerðum hafa frest til 1. janúar 2006 til að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar og viðauka hennar, varðandi lágmarksstærðir búra og útigerða.
1. Tafla
Innibúr og stíur fyrir hunda.
Fjöldi hunda
|
Lágmarksflötur (m2) miðað við meðalþyngd hundanna.
|
|||||
<5 kg
|
5-10 kg
|
10-20 kg
|
20-30 kg
|
30-40 kg
|
>40 kg
|
|
1
|
2,0
|
2,0
|
2,5
|
3,5
|
4,5
|
5,5
|
2
|
2,0
|
2,5
|
3,5
|
4,5
|
6,0
|
7,5
|
3
|
2,0
|
3,5
|
4,5
|
6,0
|
7,5
|
10,0
|
4
|
2,5
|
4,0
|
5,5
|
|||
5
|
3,0
|
5,0
|
6,5
|
|||
6
|
4,0
|
5,5
|
||||
7
|
4,5
|
6,0
|
||||
Tíkur með hvolpa |
2,0
|
3,0
|
4,0
|
6,0
|
8,0
|
9,0
|
Þak búrs skal vera nægilega hátt til að hundarnir geti staðið á afturfótunum án þess að reka sig upp undir, þó aldrei lægri en 1,3 m. Ekki er leyfilegt að stafla búrum.
2. Tafla
Útigerði fyrir hunda.
Fjöldi hunda
|
Lágmarksflötur (m2) miðað við meðalþyngd hundanna.
|
|||||
<5 kg
|
5-10 kg
|
10-20 kg
|
20-30 kg
|
30-40 kg
|
>40 kg
|
|
1
|
6
|
10
|
15
|
16
|
18
|
20
|
2
|
8
|
14
|
18
|
20
|
24
|
28
|
3
|
10
|
17
|
22
|
24
|
28
|
36
|
4
|
12
|
20
|
26
|
28
|
36
|
44
|
5
|
14
|
24
|
30
|
32
|
42
|
52
|
6
|
16
|
26
|
34
|
36
|
48
|
60
|
7
|
18
|
29
|
38
|
40
|
54
|
68
|
3. Tafla
Vistarverur katta.
Lágmarksgólfflötur búrs* |
1,5 m2
|
Lágmarksgólfflötur á kött í búri* |
0,7 m2
|
Lágmarkshæð búrs |
1,3 m
|
Lágmarksgólfflötur athafnasvæðis utan búrs |
5 m2
|
Lágmarksgólfflötur á kött á athafnasvæði |
1 m2
|
Óheimilt er að stafla búrum í hæðir.
*Engin hlið búrs má vera styttri en 1 m.
4. Tafla
Búr fyrir kanínur og nagdýr.
Tegund |
Lágmarksgólf-
flötur búrs (m2) |
Lágmarksgólf-
flötur á dýr (m2) |
Lágmarkshæð
búrs (m) |
Mýs |
0,09
|
0,018
|
0,2
|
Rottur |
0,18
|
0,06
|
0,3
|
Hamstrar |
0,09
|
0,045
|
0,2
|
Naggrísir |
0,3
|
0,15
|
0,25
|
Kanínur < 1,8 kg |
0,25
|
0,12
|
0,3
|
Kanínur 1,8 – 3,0 kg |
0,5
|
0,25
|
0,4
|
Kanínur 3,0 – 5,0 kg |
0,7
|
0,35
|
0,5
|
Kanínur > 5,0 kg |
0,9
|
0,45
|
0,6
|
Lágmarkshæð kanínubúrs skal auk þess vera þannig að kanínan geti staðið á afturfótunum án þess að reka eyrun upp í loft búrsins. Styttri hlið kanínubúra skal ná sömu lágmörkum og hæðin.
5. Tafla
Fuglabúr.
Lengd fugls* (cm) |
Lágmarks-
flötur (m2) |
Lágmarks-
flötur á fugl (m2/fugl) |
Lágmarkslengd
styttri hliðar (m) |
Lágmarks-
hæð (m) |
< 16 |
0,31
|
0,03
|
0,40
|
0,6
|
16-20 |
0,31
|
0,04
|
0,45
|
0,6
|
21-25 |
0,45
|
0,06
|
0,50
|
0,6
|
26-35 |
0,75
|
0,10
|
0,55
|
0,8
|
36-45 |
1,20
|
0,30
|
0,60
|
1,0
|
46-55 |
1,60
|
0,50
|
0,70
|
1,2
|
56-65 |
2,00
|
0,80
|
0,80
|
1,4
|
66-75 |
2,50
|
1,00
|
0,90
|
1,6
|
> 75 |
3,00
|
1,50
|
1,00
|
1,6
|