Almennar reglur.
1. gr.
Eigi má efna til aksturskeppni nema með leyfi lögreglustjóra.
Án samþykkis vegamálastjóra má eigi heimila aksturskeppni á þjóðvegi. Keppni utan vega er eigi heimil án samþykkis sveitarstjórnar.
2. gr.
Leyfi til aksturskeppni skal einungis veita skipulagsbundnum samtökum er hafa akstursíþróttir á verkefnaskrá sinni.
Aksturskeppni skal fara fram undir yfirstjórn fulltrúa sem lögreglustjóri samþykkir.
3. gr.
Aksturskeppni skal fara fram í samræmi við keppnisreglur viðkomandi samtaka sem leggja skal fyrir lögreglustjóra.
Keppnisreglur allar, þ. á m. skilmála keppnisleyfis, skal keppnisstjórn kynna keppendum áður en keppni fer fram. Ákveða má að ökumanni skuli eigi heimil þátttaka í keppni ef hann hefur brotið keppnisreglur eða gerst sekur um alvarleg eða ítrekuð brot á umferðarlögum. Verði eigi farið eftir reglum sem settar eru um keppni getur lögreglan hvenær sem er stöðvað keppni, hvort heldur er einstakra keppenda eða þeirra allra, að fullu eða þar til úr hefur verið bætt.
4. gr.
Við allan undirbúning og framkvæmd aksturskeppni ber að taka tillit til þess að keppnin og annar akstur keppenda valdi eigi öðrum verulegum óþægindum eða hættu eða skemmdum á vegi eða náttúruspjöllum.
Keppnishaldari er ábyrgur fyrir skemmdum á vegum og öðrum mannvirkjum, svo og á náttúru, sem hljótast af aksturskeppni eða öðrum akstri keppenda eða starfsmanna við keppni.
Þegar að lokinni keppni skulu merki og önnur ummerki um aksturskeppni fjarlægð.
5. gr.
Ökutæki sem taka þátt í aksturskeppni skulu ábyrgðartryggð sérstaklega vegna þeirrar áhættu sem í keppni felst. Þá skal keppnisstjórn leggja fram hæfilega tryggingu vegna ábyrgðar á framkvæmd keppninnar.Ennfremur skal keppnisstjórn kaupa slysatryggingu vegna starfsmanna við keppni utan vega er greiði bætur við dauða eða algera varanlega örorku. Heimilt er í því sambandi að kaupa vátryggingu er gildi fyrir ákveðið svæði utan vega til æfinga og æfingarkeppni, sbr. 15. gr.
Dómsmálaráðuneytið ákveður árlega vátryggingarfjárhæðir ábyrgðartryggingar vegna framkvæmdar á aksturskeppni og slysatryggingar, svo og vátryggingarfjárhæð fyrir ákveðin svæði.
6. gr.
Greiða skal kostnað vegna sérstakrar löggæslu og öryggisráðstafana sem nauðsynlegar eru að mati lögreglustjóra. Getur lögreglustjóri krafist tryggingar fyrir greiðslu væntanlegs kostnaðar.
7. gr.
Ríkislögreglustjóri getur sett almennar leiðbeiningar í sambandi við útgáfu leyfa samkvæmt reglugerð þessari, um nauðsynlegt eftirlit o.þ.h.
Framkvæmd rallkeppni.
8. gr.
Rallkeppni skal fara fram á tilgreindum vegum. Leyfi þarf til alls aksturs meðan á keppni stendur, frá rásmarki að endamarki, hvort heldur um er að ræða akstur á sérleiðum eða ferjuleiðum.
Keppnisstjórn skal leggja fyrir lögreglustjóra leiðarlýsingu ásamt tímaáætlun.
9. gr.
Þegar rallkeppni er fyrirhuguð um tvö eða fleiri lögsagnarumdæmi veitir lögreglustjóri þess lögsagnarumdæmis þar sem keppni hefst endanlegt keppnisleyfi. Skal hann sjá um að öll skilyrði fyrir keppnisleyfi hafi verið uppfyllt áður en keppni hefst.
10. gr.
Akstur keppenda skal fara fram í samræmi við reglur umferðarlaga, og skal allt skipulag keppni og keppnisreglur við það miðað. Vegarkaflar skulu vera opnir fyrir annarri umferð, nema annað verði ákveðið sérstaklega með viðeigandi öryggisráðstöfunum (umferðarmerkjum, auglýsingum, löggæslu), allt samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra.
Lögreglustjóra er heimilt að víkja frá ákvæðum um hámarkshraða á tilteknum vegarköflum að því er varðar ökutæki er taka þátt í keppni, enda verði umferð annarra ökutækja þar þá bönnuð og viðeigandi öryggisráðstafanir gerðar í samræmi við ákvörðun lögreglustjóra.
11. gr.
Akstur ökutækja er taka þátt í keppni skal háður venjulegu eftirliti lögreglu. Krefjast má skoðunar ökutækja meðan á keppni stendur.
12. gr.
Gera skal nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi og aðstöðu áhorfenda við rásmark, áningarstaði og endamark, svo og annars staðar þar sem ástæða er til, allt samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra.
13. gr.
Lögreglustjóra er heimilt að veita leyfi fyrir æfingarakstri á fáförnum vegum innan umdæmis hans, samkvæmt nánari reglum sem ríkislögreglustjórinn setur.
Framkvæmd aksturskeppni utan vega.
14. gr.
Aksturskeppni utan vega (þar með talin æfingarkeppni) skal fara fram á sérstökum svæðum.
Til aksturskeppni utan vega er einungis heimilt að nota ökutæki sem fulltrúi skv. 2. gr. hefur skráð til keppni.
Sækja skal um leyfi fyrir aksturskeppni a.m.k. sjö dögum fyrir keppni.
15. gr.
Heimilt er lögreglustjóra að samþykkja ákveðin svæði til æfinga eða æfingarkeppni. Svæðið, svo og æfingar og æfingarkeppnir, skulu lúta yfirstjórn fulltrúa sem lögreglustjóri samþykkir. Leyfi til notkunar á slíku svæði skal háð samþykki sveitarstjórnar. Auk þess skal það bundið ákveðnum skilyrðum, t.d. að því er varðar merkingar á svæðinu og vátryggingu, svo og eftirlit og skipulag á æfingum og æfingarkeppnum.
16. gr.
Með leyfi lögreglustjóra er heimilt að víkja frá ákvæðum umferðarlaga um ökuskírteini og lágmarksaldur ökumanna við æfingar og keppnir á lokuðum svæðum utan vega. Undanþága þessi gildir þó ekki um þann sem sviptur hefur verið ökurétti.
Undanþága að því er varðar þann sem ekki hefur náð 18 ára aldri er háð skriflegu samþykki foreldra eða annars forsjármanns.
Allur akstur þar sem undanþága frá ákvæðum um ökuskírteini eða lágmarksaldur gildir skal fara fram samkvæmt keppnis- og öryggisreglum viðkomandi samtaka sem leggja skal fyrir lögreglustjóra, og undir eftirliti og samkvæmt leiðbeiningum fulltrúa sem lögreglustjóri samþykkir.
Lágmarksaldur miðað við ökutæki skal vera:
a. |
Körtubílar með tvígengisaflvél að slagrými |
|
|
allt að 80 rúmsentimetrar |
frá 10 ára aldri |
|
allt að 100 rúmsentimetrar |
frá 12 ára aldri |
|
allt að 125 rúmsentimetrar |
frá 14 ára aldri |
|
125 rúmsentimetrar eða meira |
frá 16 ára aldri |
b. |
Körtubílar með fjórgengisaflvél að slagrými |
|
|
allt að 250 rúmsentimetrar |
frá 10 ára aldri |
c. |
Tvíhjóla torfærutæki með aflvél að slagrými |
|
|
allt að 80 rúmsentimetrar |
frá 12 ára aldri |
|
allt að 125 rúmsentimetrar |
frá 14 ára aldri |
|
125 rúmsentimetrar eða meira |
frá 15 ára aldri |
d. |
Torfærutæki á beltum (vélsleðar) með aflvél að slagrými |
|
|
allt að 440 rúmsentimetrar |
frá 14 ára aldri |
e. |
Óbreyttar fólksbifreiðir með aflvél að slagrými |
|
|
allt að 1600 rúmsentimetrar |
|
|
(gerð "N" samkvæmt reglum F.I.A.) |
frá 15 ára aldri |
17. gr.
Gera skal nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi og aðstöðu áhorfenda samkvæmt nánari ákvörðun lögreglustjóra, þ. á m. nægilegan fjölda bifreiðastæða utan vega.
Búnaður ökutækja.
18. gr.
Ökutæki sem notað er í rallkeppni skal fullnægja skilyrðum laga og reglna um skráningu, gerð og búnað ökutækja.
Skráningarstofu ökutækja er þó heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum um tengingu og ljósstyrk ljóskastara, hraðamæli, hávaða- og útblástursmengun, hemlabúnað, fjöðrunarbúnað og um fjölda nagla í hjólbarða. Einnig má leyfa hliðarrúður úr plasti sem ekki mynda oddhvassar brúnir þótt þær brotni, svo og auglýsingaborða efst á framrúðu. Undanþága sem skráningarstofan veitir skal aldrei ganga lengra en kveðið er á um í keppnisreglum og hávaði frá hreyfli má ekki fara yfir 100 dB þegar mælt er samkvæmt nálægðarmæliaðferð.
19. gr.
Skrá skal sérstaklega í ökutækjaskrá, svo og í skráningarskírteini, ef ökutæki skal nota í rallkeppni.
Fyrir hverja keppni skal ökutæki sem skráð er skv. 1. mgr. skoðað af þar til kvöddum eftirlitsmönnum sem lögreglustjóri samþykkir.
20. gr.
Ökutæki sem skráð hefur verið í rallkeppni er óheimilt að nota í almennri umferð. Til þess að ökutæki sem skráð hefur verið í rallkeppni verði skráð að nýju til notkunar í almennri umferð skal það fært til breytingarskoðunar hjá skoðunarstofu og viðurkennt af skráningarstofu sem gefur út nýtt skráningarskírteini.
21. gr.
Ökutæki sem skráð hefur verið til aksturskeppni (þar með talin æfingarkeppni) utan vega, sbr. 2. mgr. 14. gr., þarf ekki að fullnægja öllum skilyrðum laga og reglna um gerð og búnað ökutækja; þó skal bifreið búin veltigrind og öryggisbelti. Aksturshemill og stýrisbúnaður skulu virka örugglega. Gerð ökutækisins og búnaður þess skal uppfylla kröfur samkvæmt keppnisreglum. Einungis er heimilt að nota ökutækið á viðurkenndum æfinga- eða keppnissvæðum. Heimilt er að skrá ökutæki til aksturskeppni utan vega þótt það hafi ekki verið skráð almennri skráningu.
Fyrir hverja keppni skal ökutæki sem skráð er skv. 1. mgr. skoðað af þar til kvöddum eftirlitsmönnum sem lögreglustjóri samþykkir.
Ökutæki skráð almennri skráningu sem skráð hefur verið til aksturskeppni utan vega má ekki nota í almennri umferð nema það hafi verið fært til breytingarskoðunar hjá skoðunarstofu og viðurkennt af skráningarstofu sem gefur út nýtt skráningarskírteini.
Akstur ungra barna.
22. gr.
Lögreglustjóra er heimilt að leyfa starfsemi þar sem akstur ungra barna fer fram. Starfsemin skal vera undir eftirliti og umsjón fullorðins starfsmanns sem leiðbeinir og gætir alls öryggis, þ. á m. að börnin hafi fulla stjórn á hlutaðeigandi ökutæki, einnig þótt starfsemin fari fram án gjaldtöku. Sérstakt eftirlit skal haft með slíkri starfsemi hvað varðar búnað ökutækja, almennt öryggi og vátryggingar. Ökutækin skulu ekki hraðgengari en nemur venjulegum gönguhraða.
Við þessar aðstæður mega börn frá 5 ára aldri aka rafbílum sem sérstaklega eru hannaðir fyrir börn. Skal sá akstur fara fram á sérstaklega gerðum svæðum. Með sama hætti mega börn sem náð hafa 10 ára aldri eða eru a.m.k. 140 sentimetrar á hæð aka öðrum gerðum vélknúinna leiktækja á sérstökum svæðum.
Gildistaka.
23. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 34. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, sbr. lög nr. 44 7. maí 1993, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur um akstursíþróttir og aksturskeppni, nr. 386 18. maí 1999.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 18. apríl 2000.
F. h. r.
Björn Friðfinnsson.
Sandra Baldvinsdóttir.