Fjármálaráðuneyti

101/2007

Reglugerð um veitingu heimildar til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli. - Brottfallin

Tilgangur reglugerðar.

1. gr.

Með reglugerð þessari er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu heimildar til færslu bókhalds og samningar ársreikings í starfrækslugjaldmiðli sem er annar en íslensk króna.

Skilyrði heimildar.

2. gr.

Ársreikningaskrá veitir heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli sbr. 8. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, enda teljist hann vera starf­rækslugjaldmiðill skv. 3. gr. Heimildin nær til félaga sem ber að semja ársreikninga sína samkvæmt lögum nr. 3/2006.

Félög, sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna skilyrða, geta sótt um heimild til færslu bók­halds og samningar ársreiknings í erlendum starfrækslugjaldmiðli:

  1. Félög sem eru með meginstarfsemi sína erlendis í gjaldmiðli sem er annar en íslensk króna eða eru hluti erlendrar samstæðu þar sem starfrækslugjaldmiðill er annar en íslensk króna.
  2. Félög sem eiga erlend dótturfélög eða hlutdeild í erlendum félögum og megin­viðskipti eru við þessi félög í gjaldmiðli sem er annar en íslensk króna.
  3. Félög sem hafa meginstarfsemi sína hér á landi en eru með verulegan hluta tekna sinna frá erlendum aðilum í gjaldmiðli sem er annar en íslensk króna.
  4. Félög sem fara fram úr þeim stærðarmörkum sem tilgreind eru í 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2006 og hafa verulegan hluta fjárfestinga sinna í erlendum fjár­festingar­vörum og skuldir þeim tengdar í erlendum gjaldmiðlum, enda vegi við­komandi fjárfestingar og skuldir verulega í rekstri félags.

Starfrækslugjaldmiðill.

3. gr.

Starfrækslugjaldmiðill er sá gjaldmiðill sem vegur hlutfallslega mest allra gjaldmiðla í viðskiptum félags eða samstæðu og meginhluti viðskipta félags eða samstæðu fer fram í.

Við mat á því í hvaða gjaldmiðli meginhluti viðskipta fer fram, skal litið heildstætt til tekna, gjalda, eigna, skulda og annarra viðskiptalegra þátta í rekstri viðkomandi félags.

Starfrækslugjaldmiðill skal vera skráður hjá Seðlabanka Íslands eða viðskiptabanka félags­ins hér á landi.

Umsókn.

4. gr.

Umsókn um heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli skal berast ársreikningaskrá tveimur mánuðum fyrir upphaf viðkomandi reikningsárs.

Félög, sem stofnuð eru á árinu, skulu leggja fram umsókn eigi síðar en tveimur mán­uðum eftir stofnun þeirra ásamt rökstuðningi um að starfsemi þeirra muni uppfylla ákvæði 2. gr. Að loknu fyrsta starfsári slíks félags skal það senda ársreikningaskrá upp­lýsingar sem sýna fram á að starfsemi þess hafi uppfyllt ákvæði 2. gr.

Nú sækir fjármálafyrirtæki sem skilgreint er sem lánastofnun samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki um heimild til bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli og skal þá ársreikningaskrá leita umsagnar Seðlabanka Íslands um umsóknina.

Félag, sem fengið hefur heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli skal viðhalda þeirri aðferð í a.m.k. fimm ár nema það uppfylli ekki lengur skil­yrði 2. gr.

Telji félag sig ekki lengur uppfylla skilyrði 2. gr. ber því að tilkynna ársreikningaskrá um það. Að fenginni heimild ársreikningaskrár skal það færa bókhald sitt og semja árs­reikning í íslenskum krónum miðað við næsta reikningsár.

Eftirlit ársreikningaskrár.

5. gr.

Ársreikningaskrá skal hafa eftirlit með því að félög, sem fengið hafa heimild skv. 4. gr., uppfylli skilyrði 2. gr., sbr. 117. gr. laga nr. 3/2006.

Uppfylli félag ekki skilyrði 2. gr. skal ársreikningaskrá afturkalla heimild til færslu bók­halds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli við upphaf næsta reikningsárs. Ársreikningaskrá getur veitt félagi frest í tvö reikningsár telji hún ástandið tímabundið.

Ársreikningaskrá er heimilt að krefja félög, sem fengið hafa heimild skv. 4. gr., um upp­lýsingar um starfsemi þeirra og um vægi einstakra gjaldmiðla í því sambandi.

Gildistaka.

6. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 3/2006, um árs­reikninga, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytinu, 14. febrúar 2007.

Árni M. Mathiesen.

Baldur Guðlaugsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica