Veflestur er þjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá
Landbúnaðarráðuneyti

785/2001

Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð nr. 398/1995 um áburð og jarðvegsbætandi efni.

1. gr.

30. gr. reglugerðarinnar um þóknun orðist svo:
Til að standa straum af kostnaði við rekstur aðfangaeftirlitsins skv. reglugerð þessari skal innheimta eftirlitsgjald sem skal vera 0,2% af innflutningsverði (c.i.f.) vöru sem reglugerðin gildir um, sem innheimt skal við tollafgreiðslu vörunnar og 0,2% af söluverði innlendrar vöru (án vsk) sem reglugerðin gildir um. Gjaldið skal innheimt tvisvar á ári samkvæmt söluskýrslum framleiðenda, á eyðublöðum aðfangaeftirlitsins. Gjalddagar eftirlitsgjalds skulu vera 1. mars fyrir tímabilið 1. júlí til 31. desember árið á undan og 1. september fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní viðkomandi ár, ár hvert. Sé gjaldið ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal reikna mánaðarlega dráttarvexti af því sem gjaldfallið er og eru dráttarvextir hinir sömu og hjá innlánsstofnunum samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands. Eftirlitsgjald má taka fjárnámi.

Standi framleiðandi ekki skil á upplýsingum sem nauðsynlegar eru til álagningar eftirlitsgjalds eða gögn um gjaldskylda vöru eru ófullnægjandi að mati aðfangaeftirlitsins er heimilt að áætla gjaldið og innheimta það samkvæmt þeirri áætlun. Aðfangaeftirlitið skal skriflega tilkynna greiðanda gjaldsins um áætlunina. Telji greiðandi áætlunina ranga, getur hann innan tuttugu daga frá og með póstsendingardegi tilkynningarinnar um áætlun gjaldsins, krafist þess skriflega að aðfangaeftirlitið taki áætlunina til endurskoðunar. Skal sú krafa rökstudd með söluskrám eða öðrum nauðsynlegum gögnum. Aðfangaeftirlitið skal innan eins mánaðar frá lokum þessa frests gera greiðanda skriflega grein fyrir afgreiðslu á kröfu hans. Heimilt er greiðanda að skjóta lokaafgreiðslu aðfangaeftirlitsins til landbúnaðarráðherra og skal skrifleg og rökstudd beiðni þar um hafa borist ráðherra innan þriggja mánaða frá móttöku bréfs aðfangaeftirlitsins. Beiðni um endurskoðun á áætlun gjaldsins eða deila um gjaldskyldu frestar ekki eindaga eftirlitsgjaldsins, né leysir undan neinum viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu þess. Ef gjaldið er lækkað samkvæmt afgreiðslu aðfangaeftirlits eða úrskurði ráðherra skal endurgreiðsla þegar fara fram.

Landbúnaðarráðherra gefur út gjaldskrá fyrir aðfangaeftirlitið þar sem m.a. er kveðið á um gjöld vegna sértæks eftirlits.


2. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 22 29. mars 1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og öðlast gildi 1. nóvember 2001.


Landbúnaðarráðuneytinu, 16. október 2001.

Guðni Ágústsson.
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.

Prenta reglugerð

Þetta vefsvæði byggir á Eplica