Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja öryggi og heilbrigði skipverja á íslenskum fiskiskipum.
Reglugerð þessi gildir um skipverja á fiskiskipum.
Eigi má hafa yngri mann, karl eða konu, en 15 ára við vinnu á fiskiskipi. Um vinnu skipverja sem ekki hafa náð 18 ára aldri fer eftir ákvæðum reglugerðar um vinnu barna og unglinga, nr. 426/1999.
Í reglugerð þessari merkja eftirfarandi hugtök:
a) | Vinnutími: Sá tími sem skipverji er við störf og innir af hendi störf sín eða skyldur. |
b) | Fiskiskip: Hvert það skip, skrásett sem fiskiskip, sem notað er til fiskveiða eða annarra veiða úr lífríki sjávar. |
c) | Hvíldartími: Tími sem telst ekki til vinnutíma. |
d) | Næturvinna: Vinna á tímabilinu milli kl. 00.00 og 07.00. |
e) | Skipverji sem vinnur næturvinnu: Skipverji sem vinnur að lágmarki 3 klukkustundir af sínum daglega vinnutíma í næturvinnu eða sem ætlast er til að vinni að lágmarki 25% af sínum árlega vinnutíma í næturvinnu. |
Við skipulag vinnunnar skal gæta að öryggi og heilbrigði skipverja sé í samræmi við reglugerðir þar um, sbr. reglugerð um lágmarkskröfur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu við vinnu um borð í fiskiskipum, nr. 785/1998.
Vinnutími skal ekki vera lengri en 48 klst. á viku. Mörk vinnu- og hvíldartíma skulu vera annaðhvort:
vinnutími sem ekki má vera lengri en 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili og 72 klst. á hverju 7 daga tímabili eða
hvíldartími skal að lágmarki vera 10 klst. á hverju 24 klst. tímabili og 77 klst. á hverju 168 klst. tímabili.
Hvíldartíma má skipta í tvö tímabil og skal annað vara að lágmarki í 6 klst. Tímabilið milli tveggja hvíldartíma má ekki vera lengra en 14 klst.
Skipstjóri getur krafist þess að skipverjar vinni þann fjölda vinnustunda, sem nauðsynlegur er fyrir öryggi skipsins, allra um borð, búnaðar eða farms, eða til að koma til hjálpar öðrum skipum eða mönnum í sjávarháska.
Skipverji sem vinnur næturvinnu skal eiga kost á heilsufarsskoðun áður en þeir eru ráðnir til starfa, meðan þeir eru í starfi og þegar við á eftir að þeir eru hættir störfum, enda séu starfsskilyrði þeirra slík að heilsutjón geti hlotist af og ástæða til þess að ætla að á þann hátt megi koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma. Útgerðarmaður greiðir kostnað af læknisskoðun.
Skipverji sem vinnur næturvinnu og á við heilsufarsvandamál að stríða sem sannanlega verða rakin til vinnutíma skal þegar kostur er færður til í dagvinnustörf sem henta honum.
Heimilt er með kjarasamningum að víkja frá ákvæðum 1.-3. mgr. 5. gr. Frávik geta verið vegna hlutlægra eða tæknilegra ástæðna eða ástæðna er varða skipulag vinnunnar. Frávik skulu, að því marki sem unnt er, vera í samræmi við almennar meginreglur um verndun öryggis og heilbrigðis sjómanna, en heimilt er að draga frá þann tíma sem frí er veitt.
Siglingastofnun Íslands, getur hvenær sem er krafist nauðsynlegra upplýsinga til að hafa eftirlit með hvort ákvæðum reglugerðarinnar er fylgt.
Brot gegn reglugerð þessari fer eftir ákvæðum sjómannalaga, nr. 35/1985, með síðari breytingum.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt ákvæðum 8. gr. og 64. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, öðlast þegar gildi.