Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

327/1999

Reglugerð um löggildingu ökukennara og starfsleyfi ökuskóla. - Brottfallin

1. gr.

Löggildingu sem ökukennari má veita þeim sem:

a. er 21 árs að aldri,

b. hefur ekið bifreið, eftir atvikum bifhjóli, að staðaldri síðustu þrjú árin,

c. hefur staðist sérstakt próf fyrir ökukennara að afloknu ökukennaranámi, og

d. fullnægir kröfum um líkamlegt og andlegt hæfi sem gerðar eru til ökumanna sem annast farþegaflutninga í atvinnuskyni.

Heimilt er að synja um löggildingu ef ákvæði 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga eiga við. Synjunin skal að kröfu hlutaðeigandi borin undir dómstóla samkvæmt reglum 68. gr. a almennra hegningarlaga.

2. gr.

Löggilding ökukennara skal veitt til að annast kennslu fyrir einstaka flokka ökutækja:

- flokk B (fólksbifreið/sendibifreið),

- flokk A (bifhjól), og

- flokka C, D og E (vörubifreið, hópbifreið og stór eftirvagn/tengitæki). Löggildingin gildir einnig til kennslu fyrir farþegaflutninga í atvinnuskyni.

Löggildingu fyrir flokk A og flokkana C, D og E má einungis veita þeim sem hefur fengið löggildingu fyrir flokk B. Umsækjandi um löggildingu fyrir flokkana C, D og E skal auk þess hafa reynslu af akstri slíkra ökutækja í a.m.k. tvö ár.

3. gr.

Ökukennaranám skal fara fram á vegum Kennaraháskóla Íslands. Námið skal fara fram samkvæmt námskrá sem Umferðarráð setur, að höfðu samráði við Kennaraháskóla Íslands og Ökukennarafélag Íslands, og dómsmálaráðherra staðfestir, um nám fyrir hlutaðeigandi flokk.

Í námskrá skal koma fram hvaða þekkingu og hæfni umsækjandi þarf að búa yfir til að öðlast löggildingu.

Námskeið til undirbúnings ökukennaraprófi vegna löggildingar fyrir flokk B skal halda með hæfilegu millibili enda fáist næg þátttaka. Námskeið fyrir flokk A og flokkana C, D og E skal halda þegar ástæða þykir til.

4. gr.

Ráðgjafarnefnd, skipuð fulltrúum tilnefndum af Umferðarráði, sem stýrir vinnu nefndarinnar, Kennaraháskóla Íslands og Ökukennarafélagi Íslands, skal vera til ráðuneytis um ökukennaranám og gerð námskrár.

Nefndin skal m.a. ganga frá kennsluskrá á grundvelli námskrár þar sem eftirfarandi atriði skulu koma fram:

a. tilhögun, lengd og tímasetning námskeiða og prófa,

b. tegundir námsgreina, tilhögun kennslu og fjöldi kennslustunda í hverri námsgrein,

c. tilhögun námsmats,

d. náms- og prófkröfur, og

e. fjárhæð námsgjalda.

5. gr.

Nemandi sem lokið hefur ökukennaranámi skal gangast undir ökukennarapróf. Próf (námsmat) skal fara fram á vegum Kennaraháskóla Íslands og Umferðarráðs. Próf skal vera fræðilegt og verklegt samkvæmt nánari ákvæðum í námskrá.

Áður en próf fer fram skal kannað hvort skilyrðum 1. gr., eða 2. mgr. 2. gr. ef við á, fyrir veitingu löggildingar, öðrum en prófi, er fullnægt.

6. gr.

Nemandi sem stenst próf skal fá prófskírteini frá Kennaraháskóla Íslands. Jafnframt skal Kennaraháskólinn senda dómsmálaráðuneytinu afrit prófskírteinis ásamt framlögðum gögnum skv. 2. mgr. 5. gr.

Að uppfylltum skilyrðum, og að ósk hlutaðeigandi, gefur dómsmálaráðherra út löggildingu. Löggilding ökukennara gildir í fimm ár, þó ekki lengur en hlutaðeigandi hefur ökuréttindi. Tilkynna skal Umferðarráði um útgefna löggildingu.

Ef ökukennari hefur lokið viðbótarprófi vegna nýrra flokka (flokks A eða flokkanna C, D og E) skal dómsmálaráðherra, að ósk hlutaðeigandi, gefa út nýja löggildingu og til fimm ára.

7. gr.

Ríkisborgari í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, sem í öðru aðildarríki hefur öðlast viðurkenningu til að starfa sem ökukennari með starfsmenntun eða starfsþjálfun sem fellur undir ákvæði tilskipunar 92/51/EBE um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun, er undanþeginn námi og prófi skv. c-lið 1. mgr. 1. gr. Umsókn um löggildingu á grundvelli slíkrar viðurkenningar skulu fylgja fullnægjandi gögn.

Ráðherra kannar hvort skilyrðum til útgáfu löggildingar er fullnægt. Getur ráðherra þá ákveðið að umsækjandi skuli ljúka aðlögunartíma eða gangast undir hæfnispróf, sbr. 7. gr. tilskipunarinnar.

8. gr.

Kennaraháskóli Íslands skal í samvinnu við Umferðarráð og Ökukennarafélag Íslands halda reglulega endurmenntunarnámskeið fyrir ökukennara. Starfandi ökukennari skal að jafnaði sækja eitt slíkt námskeið á þriggja ára fresti.

9. gr.

Endurnýja má löggildingu enda fullnægi umsækjandi ennþá skilyrðum skv. b- og d-lið 1. mgr. og 2. mgr. 1. gr. til að fá löggildingu og hafi að jafnaði stundað ökukennslu á liðnu löggildingartímabili.

Nú hefur ökukennari ekki stundað ökukennslu að jafnaði á liðnu tímabili eða meira en ár er liðið frá því löggilding féll úr gildi og skal umsækjandi þá gangast undir hæfnispróf. Hæfnisprófið skal fara fram í samræmi við próflýsingu fyrir verklegt ökukennarapróf.

Umsókn um endurnýjun skal fylgja vottorð frá Umferðarráði um ökukennarastarf umsækjanda, prófvottorð skv. 2. mgr., ef við á, svo og yfirlýsing umsækjanda um að skilyrðum til útgáfu löggildingar sé að öðru leyti fullnægt.

Að uppfylltum skilyrðum gefur dómsmálaráðherra út nýja löggildingu, sbr. 2. mgr. 6. gr.

10. gr.

Dómsmálaráðherra getur hvenær sem er svipt ökukennara ökukennararéttindum, ef ástæða þykir til. Skal það gert ef ökukennari hefur verið staðinn að háttsemi sem ekki samrýmist starfi ökukennara eða hann að öðru leyti fullnægir ekki lengur skilyrðum til að öðlast löggildingu sem ökukennari. Það skal enn fremur gert ef ökukennari hefur verulega brotið gegn eða vikið frá gildandi reglum um ökukennslu eða ef hann sem forstöðumaður ökuskóla hefur borið ábyrgð á að slíkt hafi átt sér stað við skólann.

Ef Umferðarráð telur ökukennara hafa brotið þannig gegn settum reglum að varðað geti sviptingu réttinda skal það gera ökukennaranum grein fyrir málavöxtum og gefa honum færi á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri áður en mál er sent dómsmálaráðuneyti til meðferðar.

Ef ástæða þykir til að ætla að ökukennari fullnægi ekki lengur kröfum um þekkingu og hæfni til að öðlast löggildingu getur dómsmálaráðherra ákveðið að ökukennarinn skuli gangast undir hæfnispróf, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 9. gr.

Ef ökukennari hefur verið sviptur löggildingu vegna ástæðna sem greinir í 3. málsl. 1. mgr. skal leita umsagnar Umferðarráðs áður en löggilding verður veitt að nýju. Að öðru leyti má veita löggildingu að nýju þegar skilyrðum til þess er fullnægt.

Starfsleyfi ökuskóla.

11. gr.

Umferðarráð veitir leyfi til starfsemi ökuskóla til að halda námskeið til undirbúnings ökuprófi. Starfsleyfi skal binda við kennslu fyrir einn flokk ökutækja eða fleiri, þannig:

- fyrir flokk A,

- fyrir flokk B, og

- fyrir flokkana C, D og E auk kennslu fyrir farþegaflutninga í atvinnuskyni.

Starfsleyfi fyrir ökuskóla skal veita þeim sem fullnægir eftirfarandi skilyrðum:

a. Forstöðumaður skal vera starfandi ökukennari.

b. Ökuskólinn hafi aðgang að kennslufræðilegri ráðgjöf. Ráðgjafi skal hafa kennslufræðilega menntun, vera ökukennari með nám frá Kennaraháskóla Íslands eða ökukennari sem hefur lokið sérstöku námskeiði um kennslufræði hópkennslu og nýsitækni.

c. Ökuskólinn leggi fram kennsluskrár (kennsluáætlanir), skrá um kennsluefni og önnur nauðsynleg gögn.

d. Ökuskólinn hafi aðgang að viðeigandi ökutæki til aksturskennslu

e. Ökuskólinn hafi aðstöðu til bóklegrar og verklegrar kennslu sem við á.

f. Ökuskólinn skal vera skráður í fyrirtækjaskrá.

Umsókn um starfsleyfi skal leggja fram á eyðublaði sem Umferðarráð lætur í té.

Umferðarráð metur umsókn um starfsleyfi, metur kennsluhúsnæði og aflar frekari upplýsinga eftir því sem ástæða er til.

Leyfi skal veita til a.m.k. eins árs í senn, þó ekki lengur en til fimm ára. Lok starfsleyfis skal að jafnaði miða við áramót.

12. gr.

Nafn forstöðumanns (skólastjóra) og kennslufræðilegs ráðgjafa, kennitölu og aðsetur skólans, skal skrá í starfsleyfi ökuskóla. Leyfið skal festa upp á sýnilegum og áberandi stað í húsakynnum (kennsluhúsnæði) skólans. Skólastjóri og kennslufræðilegur ráðgjafi bera ábyrgð á að nám og kennsla fari fram í samræmi við námskrá og aðrar reglur.

Tilkynna skal Umferðarráði ef nýr skólastjóri eða kennslufræðilegur ráðgjafi tekur til starfa við ökuskóla og skal þá gefa út nýtt starfsleyfi í stað hins fyrra.

13. gr.

Ökuskóli getur sótt um að halda námskeið annars staðar en í því húsnæði sem starfsleyfi er gefið út fyrir. Ákvæði 11. og 12. gr. eiga þá við eftir því sem við á.

14. gr.

Um ökuskóla gildir eftirfarandi:

a. Ökuskóli skal senda Umferðarráði kennsluáætlun og stundaskrá a.m.k. fimm virkum dögum áður en námskeið hefst. Með sama hætti skal ökuskóli tilkynna um veigamiklar breytingar á kennslutilhögun.

b. Ökuskóli skal árlega senda Umferðarráði skýrslu um starfsemi skólans þar sem fram koma m.a. upplýsingar um fjölda nemenda, nýmæli í starfseminni og frávik frá kennsluskrá.

c. Ökuskóli skal halda skrá um öll námskeið og nemendur sem hefja nám og ljúka námi. Ennfremur skal skrá viðveru nemenda.

d. Kennarar skulu vera ökukennarar eða hafa kennaramenntun. Þó má fela sérhæfðum leiðbeinanda kennslu einstakra námsþátta.

e. Ökuskóli skal kynna nemendum fyrirfram tilhögun náms, svo sem lengd námskeiðs, stundaskrá, lengd kennslustunda og kostnað við nám, svo og helstu kröfur sem fullnægja þarf til að öðlast ökuréttindi í hlutaðeigandi flokki, svo sem um búsetu, líkamlegt og andlegt hæfi, reglusemi, reynslu og aldur.

15. gr.

Ökuskóli sem hefur starfsleyfi fyrir flokkana C, D og E skal senda Umferðarráði námsvottorð með einkunnum útskrifaðra nemenda að loknu bóklegu námi og eintak af prófum. Ökuskólinn skal varðveita prófúrlausnir og úrlausnir verkefna í a.m.k tvö ár frá útskrift.

16. gr.

Umferðarráð skal endurnýja starfsleyfi fyrir ökuskóla að uppfylltum skilyrðum um skil á starfsskýrslu og endurskoðun kennsluáætlana, kennsluskrám eða öðrum jafngildum gögnum eftir því sem við á.

Um endurnýjun gilda að öðru leyti ákvæði 11. og 12. gr. eftir því sem við á.

17. gr.

Starfsleyfi skal afturkalla ef Umferðarráð telur að skilyrði fyrir leyfisveitingu séu ekki lengur fyrir hendi eða ef ökuskóli fer ekki eftir reglum um starfsemi ökuskóla.

Áður en ákvörðun er tekin um afturköllun starfsleyfis skal forstöðumanni gefinn kostur á að tjá sig um málsefni.

Eftirlit með ökukennslu og ökuskólum.

18. gr.

Ökukennarar og ökuskólar skulu haga starfsemi sinni í samræmi við ákvæði umferðarlaga og reglugerðar um ökuskírteini, einstakar námskrár og ákvæði reglugerðar þessarar.

19. gr.

Umferðarráð skal hafa eftirlit með ökukennslu og ökuskólum.

Lögreglan skal tilkynna Umferðarráði ef ökukennari brýtur ákvæði í umferðarlöggjöf, svo og um önnur brot eða aðra háttsemi, sem varðað getur löggildingu ökukennara, sbr. 10. gr.

20. gr.

Starfsmenn Umferðarráðs skulu heimsækja ökuskóla eftir því sem þurfa þykir, a.m.k. einu sinni á ári, fylgjast með kennslu og fara yfir gögn sem tilheyra kennslu. Að heimsókn lokinni skal ökuskóla send skrifleg greinargerð um skoðunina.

Prófúrlausnir nemenda og önnur gögn sem notuð eru við námsmat skulu vera starfsmönnum Umferðarráðs tiltæk. Skylt er ökuskóla að láta starfsmönnum Umferðarráðs í té þær upplýsingar sem hann fer fram á í tengslum við eftirlit.

Umferðarráð getur lagt fyrir samræmt próf í einum námsþætti eða fleirum í ökuskóla. Skal það tilkynnt ökuskóla með a.m.k. 14 daga fyrirvara.

Upplýsingar sem starfsmenn Umferðarráðs verða áskynja við eftirlit skal skoða sem trúnaðarmál í þeim skilningi að óheimilt er að kynna öðrum ökuskólum atriði sem varða viðskiptahagsmuni.

Gjöld.

21. gr.

Fyrir verklegt próf til ökukennararéttinda skal greiða 8.000 krónur.

Fyrir hæfnispróf skal greiða sama gjald.

Fyrir löggildingu ökukennara skal greiða 3.000 krónur.

Fyrir útgáfu starfsleyfis fyrir ökuskóla skal greiða 5.000 krónur.

Gildistaka.

22. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 56. gr. umferðarlaga nr. 50 30. mars 1987, sbr. lög nr. 138 18. desember 1996, og 4. gr. laga um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, nr. 83 18. maí 1993, sbr. lög nr. 76 19 maí 1994 og nr. 37 16. maí 1997, svo og með hliðsjón af lið 1a í VII. viðauka (tilskipun 92/51/EBE) við EES samninginn, öðlast gildi 1. júní 1999.

EBE gerðin sem vitnað er til er birt í EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, Sérstök útgáfa, bók 4, bls. 90-104, sbr. og EES viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 17. hefti 1994, bls. 55-58.

Jafnframt falla úr gildi:

a. Reglugerð um ökukennslu, próf ökumanna o.fl., nr. 787 13. desember 1987, með síðari breytingum.

b. 1. og 2. gr. reglugerðar um prófgjöld ökumanna, gjöld fyrir ökuskírteini o.fl., nr. 634 30. desember 1991, með síðari breytingum.

c. d-liður ákvæðis til bráðabirgða í reglugerð um ökuskírteini, nr. 501 11. ágúst 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.

Ökukennarar sem við gildistöku reglugerðar þessarar hafa löggildingu til kennslu í akstri bifreiða mega annast kennslu fyrir þá flokka bifreiða sem ökuskírteinið heimilar þeim þá að stjórna.

Gildandi námskrá fyrir ökukennaranám skal gilda sem námskrá fyrir nám og próf vegna löggildingar fyrir réttindaflokk B þar til ný námskrá hefur verið sett.

Ökuskólar sem starfað hafa að kennslu til undirbúnings ökuréttinda í flokki A og B hafa frest til 1. september 1999 til að afla starfsleyfis.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 3. maí 1999.

Þorsteinn Pálsson.

Ólafur W. Stefánsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica